«

»

Molar um málfar og miðla 1350

 

Margar athugasemdir má gera við fréttir Stöðvar tvö á laugardagskvöldið (09.11.2013): Í skjátexta var sagt um seglskútuna Ópal sem kom til hafnar í Reykjavík þá um daginn: Ópal leggur að höfn. Molaskrifara finnst þetta vera óttaleg ambaga. Ópal lagist að bryggju í Reykjavíkurhöfn. Fellibylurinn sem valdið hefur miklum mannskaða og gífurlegu tjóni á Filippseyjum var sagður einn sá stærsti sem mælst hefur í heiminum. Orðið stærsti er ekki rétta orðið til að lýsa ofurkrafti þessa fárviðris. Í sex fréttum Ríkisútvarps var fellibylurinn réttilega sagður ,,einn sá öflugasti frá því að mælingar hófust.”Talað var um mannslík og menn sem ættu lögheimili í Filippseyjum. Þarna hefði átt að tala um lík, ekki mannslík, og segja á Filippseyjum í samræmi við málvenju. Íris segist vera björt á framhaldið, sagði fréttamaður um bjartsýnan viðmælanda! Slæmur dagur, þessi laugardagur, hjá fréttastofu Stöðvar tvö.

 

Áhugamaður íslenskt mál skrifaði (09.11.2013): ,,Sæll Eiður, Nú er mikill þágufallsvandi í gangi…
Heyrði tvo útvarpsþáttamenn um daginn, annar var í boli merktum… en hinn sagði frá tónleikum í sali….
Ætli menn séu farnir að spila með Vali…?
Hvaðan kemur þessi della eiginlega?” Ekki kann Molaskrifari að svara því hvaðan þetta kemur. Sumpart sjálfsagt úr skólakerfinu, en eitt er víst. Þetta er bráðsmitandi og breiðist ört út.

 

Af mbl.is á sunnudag (10.11.2013): … og hafa farþegar beðið um borð þar til veðurmörk gera afgreiðslu mögulega. Hér hefði farið betur á að segja til dæmis: Þar til veður hefur lægt og hægt er að ganga frá borði.

 

Af visir.is (10.11.2013): “Nú er sem betur fer verið að reyna að koma vélunum að flugskýlinu,” segir Vigdís Hauksdóttir, sem þessa stundina er strandaglópur í flugvél frá Keflavíkurflugvelli. – Sá sem þetta skrifaði þekkir líkast til ekki hina venjubundnu merkingu þess að verða strandaglópur. Sennilega var líka verið að reyna að koma flugvélinni upp að flugstöðinni, ekki flugskýlinu og þetta var flugvél á Keflavíkurflugvelli. Ekki frá Keflavíkurflugvelli.

 

Það sem af er dags, var sagt í fréttum Ríkisútvarpsins (10.11.2013). Betra hefði verið: Það sem af er degi.

 

Stöð tvö sýnir vikulega í opinni dagskrá vandaðan fréttaskýringaþátt, 60 Minutes frá CBS sjónvarpinu í Bandaríkjunum. Ekkert sambærilegt efni er á boðstólum í dagskrá Ríkissjónvarpsins. Þar forðast dagskrárstjórarnir erlenda fréttaskýringaþætti eins og heitan eldinn.

 

Óvenjulega mikið var um málfarshnökra í fréttum Stöðvar tvö á sunnudagskvöld (10.11.2013). Þar var til dæmis sagt: Skall stormurinn upp að landinu, reynt að telja neytendum í trú um, kettirnir eru ekkert smáflykki. Betra hefði verið: Óveðrið skall á, reynt að telja neytendum trú um, kettirnir eru engin smáflykki.

Gæðaeftirliti með skrifuðum textum er stórlega ábótavant hjá Stöð tvö.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>