«

»

Molar um málfar og miðla 1361

 

Gunnar skrifaði (29.11.2013): Þórhildur Þorkelsdóttir, fréttamaður á Stöð 2, sagði: „Mörin er unnin og brædd og svo er hún hituð í þessum potti,“ í fréttum Stöðvar 2 þann 27. nóvember. Hið rétta er að MÖRINN er HITAÐUR og BRÆDDUR og svo er HANN HITAÐUR í pottinum.

Í sama fréttatíma talaði borgarstjóri Reykjavíkur um að fólk hefði haldið hurðum opnum á brunaæfingu, en hið rétta er að DYRUNUM var haldið opnum.” Hjó eftir þessu líka með mörinn.

Hér er annað bréf frá Gunnari: „Ég spyr spurningu,“ sagði Andri Freyr á Rás 2, föstudaginn 29. nóv. „Spurningar,“ leiðrétti Guðrún Dís. „Nei, ég ætla bara að spurja eina,“ svaraði Andri þá. Þvílíkt og annað eins, sem okkur er boðið upp á!

Svo sagði Andri í sama þætti: „Stefán Jón Hafsteinn snýr aftur með Þjóðarsálina,“ en maðurinn ber ættarnafnið „Hafstein“ með einu N-i.” Kærar þakkir, Gunnar. ,,Soðbollarnir fljóta” eins og þar stendur.

Kristján skrifaði í athugasemdadálk Molanna (29.11.2013): ,,Menntamálaráðherra var í stuttu viðtali í sjónvarpsfréttum í fyrrakvöld. Það vakti athygli mína að hann notaði ekki skammstöfunina „RÚV“ í þessu stutta viðtali. Hann talaði ítrekað um „Ríkisútvarpið“. Gott hjá Illuga,.segir Molaskrifari. Annars er það bruðl og flottræfilsháttur sjónvarps RÚV sem fer mest fyrir brjóstið á mér. Norrænu stöðvarnar eru mun hógværari í alla staði. Hvers vegna getur RÚV ekki tekið þær til fyrirmyndar. Rás 1 stendur reyndar upp úr, eins og vin í eyðimörkinni.” Kærar þakkir Kristján. Tek heils hugar undir með þér. En nú er búið að stórskaða Rás eitt. Vinin í eyðimörkinni hefur minnkað.  En ruglið heldur áfram í sjónvarpinu, samanber tíumilljóna þáttinn á laugardagskvöldum sem er einstaklega ómerkilegur og greinilega rándýr.

Verslaðu eins kílós öskju af Nóakonfekti, var sagt í auglýsingu frá Nóa Síríusi á Bylgjunni , eða Stöð tvö, (28.11.2013) Gamalt og gróið fyrirtæki eins og Nói Síríus ætti að hafa smekk og þekkingu til að biðja fólk um að kaupa konfekt, ekki versla konfekt.

 

Lög um vændi var breytt, var sagt fréttum Stöðvar tvö (28.11.2013). Hefði átt að vera: Lögum um vændi var breytt.

 

Húsgagnahöllin auglýsir (29.11.2013) í sífellu Black Friday útsölur í Reykjavík og á Akureyri. Þetta er eftiröpun á auglýsingum á útsölum í Ameríku sem hefjast þar daginn eftir þakkargjörðardaginn sem var á fimmtudag, Thanksgiving. Þá hefst jólakauptíð stórverslana og kaupmanna. Umbúðalaust, má ekki mælast til þess að þetta fyrirtæki hundskist til að auglýsa á íslensku fyrir íslenska neytendur? Molavin sendi línu um þetta sama efni (29.11.2013): „Í dag er Black Friday…“ auglýsir Húsgagnahöllin í RÚV í dag. Rúmfatalagerinn gerir það líka. Var málfarsráðunautur líka rekinn?  – Von er að spurt sé.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Takk fyrir þetta Egill.Hvort tveggja má til sanns vegar færa. Svara þessu í Molum.

  2. Egill Þorfinnsson skrifar:

    Sæll Eiður,
    Undanfarna daga hefur mikið verið fjallað um brottrekið fólk frá Ríkisútvarpinu og líka vitnað í það sjálft þar sem það segist hafa verið rekið. Mér finnst það ótrúlega algengt að almenningur og bersýnilega fjölmiðlamenn líka þekkja ekki muninn á því að vera rekinn eða vera sagt upp. Þessu fólki var sagt upp það var EKKI rekið. Menn eru reknir úr starfi brjóti þeir eitthvað af sér og yfirleitt gert að hætta samstundis og eru sviptir launum samtímis. Þetta á ekki við um starfsmenn Ríkisútvarpsins. Menn ættu því að hætta þessu „ég var rekinn/þeir voru reknir“ því það er einfaldlega rangt, fólkinu var sagt upp.
    Kv, Egill

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>