Sú sem fjallaði byggingu Tónlistarhússins í Kastljósi RÚV (24.06.09.) sagði: Samkvæmt Stefáni Hermannssyni.. Þetta er sami ósiðurinn og þegar blaðamenn skrifa: Samkvæmt lögreglunni…Betur hefði verið sagt: Að sögn Stefáns Hermannssonar. Það fór reyndar ekki á milli mála að umsjónarmaður Kastljóssins var andvígur framhaldi á byggingu Tónlistarhússins. Kannski hafa fleiri en Molaskrifari saknað þess að ekki var spurt: Hvað kostar að hætta við bygginguna ?
Merkileg fyrirsögn á Vefdv (25.06.09.) vakti forvitni mína.: Hollywood-maddama handtekin og stjörnurnar skelfa. Við lestur meginmáls undir þessari fyrirsögn (á erfitt með að kalla þetta frétt) kom í ljós að stjörnurnar voru ekki að skelfa neinn. Heldur átti að standa þarna stjörnurnar skjálfa. Eitt er að skelfa, annað að skjálfa. Á íslensku þýðir orðið maddama eiginkona prests, prestsfrú eða hefðarfrú. Á ensku er orðið madam notað um konu sem stjórnar hóruhúsi, hórumömmu. Það er því aulaþýðing að kalla slíka konu maddömu. Síðan læt ég lesendum eftir að dæma þessa setningu: Og er því óhætt að segja að stjörnurnar skelfi nú í skónnum sínum yfir því hvaða upplýsingar Braun gæti haft um þá. Skylt er að geta þess að síðar var skelfa breytt í skjálfa. Leiðrétt setningin leit þá svona út: Og er því óhætt að segja að stjörnurnar skjálfi nú í skónnum sínum yfir því hvaða upplýsingar Braun gæti haft um þá. Leiðréttingin náði sem sé ekki mjög langt.
Ef veitingahús óviljandi ræður kokk, sem eldar óætan mat, er kokkurinn rekinn. Ráðamönnum Vefdv finnst greinilega í góðu lagi að ráða blaðamenn,sem kunna ekki að skrifa.
Sífellt er verið að rugla saman forsetningunum að og af. Þannig skrifar alþingismaður á bloggsíðu (24.06.09.) sinni um samantekt um Icesavemálið: Dreifi henni hér með, af fengnu leyfi frá höfundi. Hér á auðvitað að standa: … að fengnu leyfi.. Af fengnu leyfi er málleysa og rökleysa.
Annað sem oft er ruglað með er að ganga á eftir og að ganga eftir. Þessu var ruglað saman í tíufréttum RÚV sjónvarps (24.06.09.) þegar fréttamaður talaði um að ganga á eftir loforðum. Hann hefði átt að tala um að ganga eftir loforðum. Að krefjast efnda á loforðum. Að ganga á eftir e-m er að ganga fyrir aftan einhvern, en á ganga eftir e-u hjá e-m er að krefjast e-s af e-m.
7 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður Svanberg Guðnason skrifar:
26/06/2009 at 17:04 (UTC 0)
Fyrir óralöngu, þegar Molahöfundur var formaður menntamálanefndar efri deildar Alþingis, heimsótti nefndin einn af menntaskólum höfuðborgarinnar. Komið var inn í enskutíma, þar sem kennarinn hafði skrifað stíl á töfluna. Í stílnum voru þrjár stafsetningarvillur. Aldrei, aldrei, hefði þetta hent mína gömlu enskukennara í MR fyrir hálfri öld og svolítið betur, þau Bodil Sahn, Ottó Jónsson, Guðna Guðmundsson og Gunnar Norland. Úrvals kennarar öll.
Eygló skrifar:
26/06/2009 at 12:39 (UTC 0)
Börn og unglingar. Við fyrirgefum þeim meðan þeir eru það.
Líffræðikennari í MH skrifaði á töfluna: „Leðurblaðka“ ???!!!
Kristján Jón Blöndal skrifar:
26/06/2009 at 09:29 (UTC 0)
Það var nýlega í sjónvarpsfréttum ungur athafnamaður á uppleið sem talaði um að eitthvað væri í uppsigi,blandaði þarna saman að eitthvað væri í aðsigi og að eitthvað væri í uppsiglingu.
Það er næstum hver einasti fjölmiðlamaður sem segir: Við ötlum í stað ætlum,að fara að gera þetta eða hitt,þetta er hvimleitt hjá honum Agli í Silfur Egils t.d.
Og annað: hvað er rétt þegar sífellt er klifað á seinasti og seinasta þetta,er búið að þurrka út orðið síðasti?
Það hlýtur að vera einhver merkingarmunur á notkun þessara orða,en sjálfur er ég ekkert fullkominn.
Eiður skrifar:
26/06/2009 at 08:31 (UTC 0)
Ekki átta ég mig heldur á þessu með víst/fyrst. – Það er engu líkara en í grunnskólanum sé ekki lengur lögð áhersla á að kenna nemendum beygingu og notkun orðanna: Faðir, móðir, systir, bróðir. Sýnist það sorgleg staðreynd.
Eygló skrifar:
26/06/2009 at 01:54 (UTC 0)
Ekki vildi ég mæta stjörnu sem skelfir í skónnnnnum, það veit hamingjan.
Sigfús, mig langar svo að skilja það sem þú imprar á. Hef aldrei séð/tekið eftir ruglingi með „víst“ / „fyrst“. Lát heyra/lesa 🙂
Ég les ALLAR molafærslur þínar, Eiður.
Jón Óskarsson skrifar:
26/06/2009 at 00:42 (UTC 0)
mbl.is | 25.6.2009 | 23:50
„Lögregla hefur yfirheyrt faðirin ….. en segir að hann sé niðurbrotinn.
„Lögregla hefur yfirheyrt föðurinn og segir hann vera niðurbrotinn.
Vefmiðlar Mogga og Vísis og DV hafa það að leiðarljósi í sínum fréttum að þær skuli skrifaðar af fólki sem ekki hefur hið minnsta vald á móðurmáli sínu.
Sigfús skrifar:
26/06/2009 at 00:13 (UTC 0)
Það hefur lengi hrjáð veffréttaritara að vera óskrifandi. Annað sem ég er farinn að taka eftir er að orðin víst og fyrst virðast farin að vefjast fyrir fólki meira en áður. Oft kemur annað, þá aðallega víst, þar sem fyrst ætti að standa. Veit ekki hvort þú hefur fjallað um það, en ég les síðuna þína samt nokkuð reglulega og þakka góð skrif fyrst ég er farinn að skrifa hér eitthvað á annað borð.