Gamall skólabróðir og vinur, Sigurður Oddgeirsson, skrifaði frá Danmörku (01.12.2014):
,,Jón Steinar talar um hnífgradda í grein sinni á Eyjunni í dag.
Ég hef aldrei heyrt þetta orð, en hef engin tök á því að staðhæfa að það sé ekki til í málinu.
Graddi er auðvitað til í málinu, en það er þessi samsetning, sem bögglast fyrir brjósti mér.
Aftur á móti hef ég heyrt talað um hnífgrélu í merkingunni bitlaus, og hálf illa farinn hnífur (ryðgaður?).
Skildi Jón Steinar fara þarna orðavillt?”. Molaskrifari kannast vel við að talað sé um hnífgrélu, lélegan hníf. Hnífgraddi hafði hann ekki heyrt áður, en orðabókin geymir líka orðið hnífgraddi í nákvæmlega sömu merkingu, lélegur , slitinn, mjór hnífur. . Þannig að Jón Steinar er hér alveg á réttu róli.
(1.12.2014): Atli Rúnar Hauksson skrifaði (01.12.2014),,Sæll vertu og hafðu þökk fyrir eljusemina við að halda úti þessu fína málfarsbloggi … Auðvitað væri betra að slík skrif væru óþörf ,en þau eru það aldeilis ekki!
Ég hjó eftir því að annar umsjónarmaður hins ágæta sjónvarpsþáttar Orðbragðs sagði við viðmælanda sinn í gærkvöld: Þú rústar HONUM. Heima í stofustólnum velti ég fyrir mér hvort það sé orðin viðurkennd firra, meira að segja á yfirlýstum málvöndunarbæjum að rústa einhverju en ekki eitthvað. Þetta orðfæri sækir hratt á en ég felli mig bara ekki við það. Ef til vill telst máltilfinning mín að þessu leyti vera snertur af sérvisku en ég ætla áfram að rústa eitthvað, hvað sem líður ,,löggildingu“ Orðbragðs frá í gær!
Óþægilega margt ber fyrir augu og eyru af furðuverkum. Í morgun las ég auglýsingu frá skemmtistaðnum Rosenberg við Klapparstíg, á ensku og ,,íslensku“. Ég velti fyrir mér hvernig miðasölu er þar háttað. Auglýsingatextanum lýkur þannig:
Tickets: 1500 ISK
Tickets are sold at the door
Miðaverð: 1500 kr.
Miðar eru seldir í hurðinni.”
Molaskrifari þakkar hlýja kveðju og er sammála bréfritara um sögnina að rústa, – og telur það ekki neina sérvisku. En oft heyrist þó talað um og skrifað að rústa einhverju. Orðbragðsþátturinn á sunnudagskvöld var reyndar ekki með þeim bestu, – að mati Molaskrifara.
Auglýsingin frá Rosenberg er eiginlega dapurlega drepfyndin.
Ekki heyrði Molaskrifari betur en í Morgunútgáfunni í Ríkisútvarpinu í gærmorgun (02.12.2014), undir lok þáttarins, væri sagt í Dalvík. Málvenja er að segja á Dalvík.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar