«

»

Molar um málfar og miðla 1629

Eins og sjálfsagt þorri þjóðarinnar horfði Molaskrifari bergnuminn á Kastljós gærkvöldsins (04.12.2014) þar sem teymi snillinga með Tómas Guðbjartsson skurðlækni í fararbroddi vann afrek á heimsmælikvarða. Þetta var eiginlega ótrúlegara en orð fá lýst. Þau sem þetta afrekuðu mega vera stolt og við stolt af því að eiga þau að. Þetta fólk megum við ekki missa. Afrek á borð við þetta verða ekki til fjár metin. Eitt eftirminnilegasta Kastljós, sem Molaskrifarari minnist að hafa séð. Efnið var líka mjög vel og fagmannlega  framsett og sniðið á skjáinn. Takk.

Í kjölfarið fylgdi ágætt viðtal við Ólöfu Nordal nýjan innanríkisríkisráðherra. Skynsamlegt val hjá formanni Sjálfstæðisflokksins. Kom öllum í opna skjöldu og treysti sig um leið í sessi.

Lokakafli Kastljóssins var hallærislegur antiklímax ( ef Molaskrifara leyfist að nota það orð). Þetta innanhússsamtal starfsmanna, -sjónvarpsfólk talaði við sjónvarpsfólk um sjónvarpsþátt, átti ekkert erindi í fréttaskýringaþátt.

 

Í útvarpsauglýsingum (02.12.2014) er okkur sagt að Hjálparstofnun kirkjunnar byggi brunna. Ekki hefur Molaskrifari heyrt það orðalag áður. Brunnar eru venjulega grafnir. Það er líklega erfitt að byrgja brunn sem hefur verið byggður.

 

Tólf fellibylir, sagt í kvöldfréttum Ríkisútvarps (03.11.2014). Fleirtalan af bylur er byljir. Tólf fellibyljir, hefði þetta átt að vera.

 

Í fréttum Stöðvar tvö (03.12.2014) var rætt um að ef til vill mætti setja svokallað amnesty-ákvæði í íslensk skattalög. Einfaldara hefði verið að tala við hlustendur á íslensku og tala um ákvæði um sakaruppgjöf.

 

Þakka þér fyrir, Jóhanna, sagði fréttamaður, sem las fréttir í Efstaleiti (04.12.2014) við fréttamann sem talaði úr Alþingishúsinu. Gjörðu svo vel, sagði fréttamaðurinn,sem þakkað var. Þetta finnst Molaskrifara ekki til fyrirmyndar en heyrist nokkuð oft ,- of oft, satt best að segja.

 

Mikið af góðum skriffinnum starfar á auglýsingastofum við textagerð. Ekki er hægt að hrósa þeim, sem samdi texta útvarpsauglýsingar, sem hljómar svona: Ví æ pí og Hornafjarðarhumar. Þessi auglýsing er ekki á íslensku nema að hálfu leyti. Það líka ljót sletta, þegar símafyrirtækið Vódafón auglýsir kjör sem kennd eru við red áskrift. Auglýsing í hádegisútvarpi (04.12.2104) hljómaði svona: Við fílum kúlið. Alla vega heyrði Molaskrifari ekki betur . Hversvegna er ekki talað við okkur á íslensku? Mikla sök eiga hér auglýsingastofur og kannski mesta auglýsingastofa Ríkisútvarpsins, sem tekur gagnrýnilaust við öllu sem að henni er rétt.- Eins og hér hefur oft verið sagt. Þar er gæðaeftirlit ekki til staðar og ekki farið eftir þeim reglum sem Ríkisútvarpið hefur sjálft sett sér. Er ekki heiðarlegast að afnema reglurnar fyrst þær eru ekki í heiðri hafðar?

 

Í Morgunútgáfunni (04.12.2014) var sagt að Mótettukór Hallgrímskirkju hefði unnið til þriggja verðlauna. Vann ekki þessi frábæri kór  til þrennra verðlaun?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>