Í kvöldfréttum Ríkisútvarps og sjónvarps og á vef Ríkisútvarpsins var tekið svona til orða (08.12.2014): ,,Vegagerðin varar við ófærð um Hellisheiði, Þrengsli og Mosfellsheiði í kvöld og að fjallvegir á Austfjörðum loki um miðnætti.” Fjallvegir loka hvorki einu né einu. Hér hefur sennilega verið átt við að fjallvegum á Austurlandi yrði lokað um miðnætti, eða að fjallvegirnir mundu lokast um miðnætti.
http://www.ruv.is/frett/illvidri-gengur-yfir-landid
Þetta var betur orðað á mbl.is þar sem vitnað var í heimasíðu Vegagerðarinnar: ,,Þar kemur einnig fram að hætta sé á að fjallvegir á Austurlandi lokist um miðnætti.”
Fyrrum starfsfélagi skrifaði:,, Lenti á Keflavíkurflugvelli með látinn einstakling“. Þetta er fyrirsögn á dv.is í dag, 8. janúar. Er ekki full mikið í lagt þarna? Hefði ekki verið eðlilegra og betra að tala um mann eða farþega. Einstaklingar hafa fjölgað sér ískyggilega í fjölmiðlum að undanförnu og ekki fjarri lagi að tala um offjölgun í því sambandi. – Molaskrifari þakkar bréfið. Rétt er það, að einstaklingum og aðilum fer nú mjög fjölgandi!
Fróðlegir pistlar um landbúnað á Íslandi hafa verið fréttum Ríkissjónvarps að undanförnu. Þar hefur meðal annars komið fram að aðeins lítill hluti þess lambakjöts, sem fluttur er út héðan er seldur ytra sem íslenskt lambakjöt. – Hefur ekki verið varið tugum eða hundruðum milljóna til að selja íslenskt lambakjöt í Bandaríkjunum? Og hver er árangurinn? Hver er ábatinn í hlutfalli við útlagðan kostnað? Fróðlegt væri að sjá upplýsingar um það. Skyrið okkar selst eins og heitar lummur vestan hafs og austan þó ekki sýnist jafn mikið fjármagn hafa verið lagt í að kynna það erlendis og lambakjötið.
Hlustaði, fremur en horfði á Kastljósið í gærkvöldi (09.12.2014). Heyrði ekki betur en ferðamálaráðherra talaði um ,, að fatta upp á”. Það fer víða barnamálið, hafi ég heyrt rétt.
Hér hefur dagskrárstundvísi Ríkisútvarpsins, hljóðvarps, útvarps oft verið hrósað. Molaskrifari horfir oft á síðkvöldum á BBC World Service sjónvarpsfréttirnar og hlustar um leið á fréttir Ríkisútvarpsins á heila tímanum. Það bregst yfirleitt ekki, að þegar BBC klukkan sýnir heila tímann, til dæmis klukkan 22 00 eða á miðnætti 00:00, þá hefst fréttalesturinn í Efstaleiti nánast á sömu sekúndunni. Þetta er til mikillar fyrirmyndar.- Reyndar brást þetta eitthvað í gærkveldi, þegar upphaf fréttatímans á miðnætti heyrðist hvorki á Rás eitt né Rás tvö. Hvorki var þetta útskýrt né afsakað. Svo bregðast krosstré …
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar