«

»

Molar um málfar og miðla CXIX

Í fréttum RÚV klukkan 0500 og aftur klukkan 0600 (08.08.2009) var sagt  frá ungabarni sem  talið hafði verið látið og átti að fara að kistuleggja. Barnið hafði vegið  500 grömm við fæðingu. Íslensk málvenja  er að tala um merkur,  þegar talað er um þyngd nýfæddra barna  en líklega vita  fæstir að  ein mörk er 250 grömm eða þar um bil.  En  svo   sagði fréttamaður, faðir barnsins heyrði grátur úr kassanum  sem  barnið var í.Samkvæmt minni máltilfinningu hefði fréttamaður átt að segja   að faðirinn hefði heyrt  grát (þf.) úr kassanum. Grátur (Kv ft) eru  altarisgrindur  eða  lágt þrep sem kropið er á  við altarisgöngu.  – Aldrei er ég heldur  sáttur  við  þegar  sagt er að ástand  slasaðra eða sjúkra sé  stöðugt.

Það er frábært hjá Rás eitt að leika klassiska  tónlist frá miðnætti  fram undir klukkan sjö á morgnana. Sá er þó galli á gjöf Njarðar að  tónlistin er ekki kynnt og  var það sagt  sparnaðarráðstöfun. Var það ekki  Tómas Guðmundsson  , sem  sagði í ljóði sínu  um  Fjallgönguna, að landslag væri lítils virði ,ef það héti ekki neitt ? Hef  ekki ljóðasafnið hans  við hendina svo þetta er tilvitnun eftir minni ,sem getur verið brigðult. Nákvæmlega það sama finnst mér eiga við um tónlist. Það er  í raun óvirðing við höfunda og flytjendur að láta nafna þeirra ógetið.  Hvað þætti  fólki  ef  lesin væri saga í útvarp, ekki væri  sagt hvað hún héti, hver væri höfundur hennnar og  hver læsi ?

Sem einn af eigendum RÚV ( eins og alltaf er verið að segja okkur í auglýsingum) þá er ég með tillögu til sparnaðar sem  gæti orðið til þess að hægt  væri að taka þessar  kynningar  á sígildri tónlist upp að nýju. Embætti útvarpsstjóra  hefur til umráða einn af dýrustu slyddujeppum landsins. sannkallað lúxustæki. Ef  embættið þarf  bíl, hversvegna þá   ekki notast við  bíl sem kostar  um það bil þriðjung af því sem núverandi farkostur kostar skattgreiðendur ?  Þetta er engin öfund hjá mér. Ég er alveg prýðilega bílum búinn, ef ég má  svo til orða  taka? Ég nefni til dæmis jeppling  eins og  Hyundai Santa  fe  eða KIA Sportage. Flottir  bílar ódýrir í  rekstri og  bila sjaldan.Kosta sennilega þriðjung  af verði núverandi  farkosti þessa háa embættis  Annars man ég ekki  til að embættið hafi í tíð  Andrésar Björnssonar, Heimis Steinssonar, Markúsar Arnar  eða Péturs  Guðfinnssonar þurft á sérstakri  bifreið að halda, bifreið sem   reyndar er  dýrari en sumir   ráðherrabílarnir. En  svona  mætti taka þessar kynningar upp að nýju, –  ef forgangsröðunin væri í lagi.

Þetta er  svona  vinsamlega ábending um hvernig mætti spara og um leið bæta dagskrána.

Reyndar á ég fleiri  sparnaðartillögur í pokahorninu. Þær koma kannski seinna.

Þetta er skrifað árla morguns sunnan undir Hestfjalli,sem ætti  víst samkvæmt málfræðinni að  heita Hestsfjall. Hestfjallið og færeyska  eyjan Hestur eru nákvæmlega eins í laginu ! Hér í Hesti eru brekkurnar bleikar af beitilyngi,sem  skartar sínum skærbleiku blómklösum, sem birtast síðsumars þegar aðrar plöntur búa sig í haustbúning. Eins og segir í ágætri Plöntuhandbók Harðar Kristinssonar. Langþráð regnið  hefur  vakið lyngið til lífs.

22 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Einar Jónsson skrifar:

    Varð undrandi þegar ég las í Sunnudagsmogganum (drottingar)viðtal við Bjarna Ben. (nú í júnímánuði) þar sem hann sagðist (í fyrirsögn) “ … ekki vera vaklandi í pólitík…“. Orðið vaklandi (sem ekki var einusinni haft skáletrað eða inna gæsalappa) er hrein danska eða skandínavíska (varla áhrif úr þýsku þó mynd af þessu orði komi fyrir í því máli) og fyrirfinnst ekki í íslenskum orðabókum, eldri né yngri, stórum né smáum) og hefur lítið sést hér á prenti. Athugun á Google leiðir í ljós að þetta virðist vera hortittur sem vakinn hefur verið upp á Alþingi síðustu 5-6 árin og þá af örfáum þingmönnum í yngra kanntinum. Nær eina dæmið um notkun þess utan þingsala er úr ljóði Stefáns nokkurs Finnssonar (f 1947); Útverðir í vestri: „Ég þekki varir í vaklandi birtu“. Óljóst hvað samsetningur þessi er gamall en þetta helv… er ekki íslenska og auðsæilega
    valið af því að höfund vantar stuðul. Orðið er annars ekki ljótt og ef að gera á það
    að nýyrði (sem undirtit. finnst ekki útilokað því skylt orð er þegar fyrir í tungunni, þ.e. vakk og að vakka) væri nær að skrifa það „vakklandi“ því annars halda menn að bera eigi það fram eins og “ vakandi“.

  2. Benedikt skrifar:

    Varðandi athugasemd mína hér fyrir ofan: drengurinn virðist eftir allt saman hafa legið í kassa en ekki kistu. Þetta myndskeið virðist meira að segja gefa til kynna að þetta hafi verið pappakassi. Ekki mikil virðing fyrir þeim látnu? http://www.mbl.is/mm/frettir/erlent/2009/08/10/fyrirburinn_latinn/

  3. Eiður Guðnason skrifar:

     Kærar þakkir fyrir   þessar áhugaverðu ábendingar og leiðréttingar,  ekki síst þetta með Hestfjallið og samsetningar orða. Mér er  vonandi virt það  til vorkunnar að vera ekki menntaður íslenskufræðingur , heldur leikmaður sem lætur sig tunguna varða.

  4. Joni skrifar:

    @Steini Briem:  Þakka þér kærlega fyrir þetta PDF skjal, mjög áhugaverð lesning það

  5. Joni skrifar:

    Var búinn að gleyma þessu með hann Laxness.  En er nú búinn að grafa upp þá minningu að kennarinn hafði ekki miklar mætur á honum, né hans „sérvisku hvað varðar íslensku.“

  6. Steini Briem skrifar:

    „Icelandic kórréttur 'absolutely, totally correct' was reproduced ex interno from the Icelandic etymologically opaque element kór-, appearing merely in kórvilla 'grave error, total mistake' + réttur 'right, correct' (Heimir Pálsson pc), and ex terno from Intl correct.

    The first record of kórréttur is found in Paradísarheimt 'Paradise Reclaimed' from 1960, written by the Nobel Prize Winner for literature Halldór Laxness. Within our collected data from our PSMs, this is the only lexeme that is not totally assimilated semantically with the ex externo lexeme, as the intensifier kór- 'totally, absolutely' from kórvilla is reproduced.“

    Icelandic: Phonosemantic Matching

  7. Áslaug Ragnars skrifar:

    Jóni, orðið kórrétt mun vera komið frá Halldóri Laxness.

  8. Joni skrifar:

    Kórrétt er að segja að  hafa eitthvað  við höndina, það tek ég undir.

    „Kórrétt“ er ekki sér-íslenskt orð, allavega ekki samkvæmt öldruðum
    íslenskukennara mínum í gagnfræðaskóla. 

    „Kórrétt“ er einungi íslensk afbökun á enska orðinu „correct“ (kemur þaðan úr latínu: correctus) og trúi ég
    ennþá kennara mínu, núna hartnær tuttugu árum síðar.

    Ef lesendur þessara bloggmola hafa frá öðru að segja varðandi þetta orð, þá
    er ég tilbúinn að hlusta.

    Þakka fyrir ágæta málfars-mola.

  9. Steini Briem skrifar:

    Rithátturinn ungabarn virðist þó vera þrisvar sinnum algengari en ungbarn, þegar leitað er á Netinu.

  10. Steini Briem skrifar:

    „Engar sambærilegar samsetningar eru til með unga- að fyrri lið en barn að síðari lið. Dæmi um aðrar samsetningar með ung- eru ungdómur, unghæna, unglamb, ungliði, ungmenni, ungskáld og fjölmörg önnur.

    Samsetningar með unga- að fyrri lið eru flestar tengdar fuglsungum, til dæmis ungadauði, ungadráp, ungaeldi, ungafiður, ungafæða, ungahópur, ungahæna, ungamamma og mörg fleiri. Þar er um eignarfallssamsetningu að ræða, það er fyrri liðurinn stendur í eignarfalli.

    Algengt er þó í samtímamáli að nota myndina ungabarn samhliða ungbarn. Báðir rithættirnir, ungbarn og ungabarn, teljast réttir en frekar er mælt með rithættinum ungbarn.

    Sjá Vísindavefinn

    Lúkasarguðspjall 2.1-14:

    „… Verið óhræddir, því, sjá, ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs. Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og liggjandi í jötu. …“

  11. Áslaug Ragnars skrifar:

    Eiður, þakka þér kærlega fyrir þessa pistla sem eru bæði þarfir og góðir. Ég vil líka þakka Steina Briem fyrir vandaða athugasemd.

  12. Guðríður Haraldsdóttir skrifar:

    Sammála Bjarna Sigtryggssyni með UNGAbarn, ekki segjum við t.d. ungAbarnasund. Gæti þessi óþolandi málvenja, sem er orðin mjög útbreidd, verið vegna þess að við segjum kornabörn og þá óafvitandi farið að segja ungAbörn?

    Ég veit ekki einu sinni hvort þetta telst rétt eða rangt en mér finnst þetta jafnóþolandi og þegar fólk segir bogAmaður og happAdrætti. Frábært að fá útrás fyrir þennan greinilega undirliggjandi pirring hjá mér.

  13. Bjarni Sigtryggsson skrifar:

    Í ensku (amerísku amk.) er oft notað orðið „box“ yfir líkkistu í stað orðsins „cascet“ enda Bandaríkjamenn iðulega óformlegir í orðavali. En mér líkar illa við orðið „ungabarn“ og hef vanist orðinu „ungbarn“. Hitt hljómar eins og afkvæmi unga, eða barna.

  14. Steini Briem skrifar:

    „Í íslensku er hægt að mynda samsetningar á þrjá vegu:

    • Fast samsett orð
    • Laust samsett orð
    • Bandstafssamsetning

    Með fast samsettu orði er átt við að notaður sé stofn fyrri liðar án beygingarendingar. Sem dæmi mætti nefna: snjó-bretti, hest-vagn, sól-bruni, borð-fótur.

    Í laust samsettu orði stendur fyrri liður í eignarfalli, ýmist eintölu eða fleirtölu. Sem dæmi mætti nefna dagsbrúndagatal, bóndabýlibændaskóli, barnsgráturbarnaskóli.

    Með bandstafssamsetningu er átt við að samsetningarliðir séu tengdir saman með sérstökum bandstaf sem ekki er eignarfallsending og ekki heldur hluti stofns. Bandstafir geta verið a, i, u og s. Dæmi: rusl-a-fata, eld-i-viður, sess-u-nautur, athygli-s-verður.

    Í orðunum Ægisíða og Landspítali er um stofnsamsetningu að ræða. Þeir sem bjuggu nöfnin til notuðu stofninn við orðmyndunina. Stofninn í Ægir er Ægi-, stofninn í land er land. Ekki hefði verið rangt að mynda orðin Ægissíða og Landsspítali, það er eignarfallssamsetningar, en það var ekki valið.

    Um samsett orð má lesa frekar í ritinu Íslensk tunga – Orð (2005:151–157).“

    Sjá Vísindavefinn.

  15. Magnús Óskar Ingvarsson skrifar:

    „Þetta er skrifað árla morguns sunnan undir Hestfjalli,sem ætti víst samkvæmt málfræðinni að heita Hestsfjall.“

    Nei, það er rangt. Þetta er sama eðlis og t.d. eldhús (ekki eldshús), bílskúr (ekki bílsskúr), flugmaður (ekki flugsmaður) og mikill fjöldi annarra samsettra orða þar sem notuð er stofntenging en ekki eignarfallstenging.

    Samt sem áður finnst mér virðingarvert að þú skulir finna að óvönduðu og oftast nær mjög lélegu málfari fjölmiðlanna og þá sér í lagi mbl.is. Það er ekki einleikið hversu slappir þeir eru í beitingu málsins síns.

  16. Steini Briem skrifar:

    „Orðið beygist svo: hönd (nf.), hönd (þf.), hendi (þgf.), handar (ef.). Hins vegar er nokkuð almenn tilhneiging til þess að nota þágufallið, hendi, í stað nefnifalls og þolfalls, hönd, …“

    Íslenskt mál – Morgunblaðið á Netinu

  17. Karl Jóhann skrifar:

    Þar sem þú ert áhugamaður mikill um vandvirkni í fjölmiðlum vil ég benda þér á þessa athyglisverðu mynd. Hún sýnir hvernig vefmiðlarnir greindu frá dómi sem féll í Héraðsdómi Reykjavíkur. Reyndar er greint frá aðalatriðum réttilega en samt sem áður sakfella þrír miðlar karl og konu af ákærulið sem þau voru sýknuð.

    Þess ber að geta að Rúv breytti síðar textanum á vefnum og greindi rétt frá í fréttatímum. Vísir/Stöð 2/Bylgjan greindu hins vegar rangt frá í sínum fréttatímum og meira að segja kvöldfréttum, átta og hálfum tíma eftir að dómurinn var kveðinn upp.

    Samantekt á myndformi

    Er þetta í lagi?

  18. Eiður Svanberg Guðnason skrifar:

    ..  af verði núverandi farkosts… á  auðvitað að  standa  hér að ofan, – afsakið.

    Ég skildi þettta þannig  að faðirinn hefði verið að fara með barnið í kistulagningu, ekki að það hefði verið í líkkistu.

  19. Eiður Svanberg Guðnason skrifar:

    Þetta er rétt Jóhanna. Ég hef líklega fallið í gryfju algengs talmáls. Í íslenskri orðabók er  talað um að  hafa eitthvað við hendi sér, hafa eitthvað tiltækt eða hjá sér. Kórrétt er að segja að  hafa eitthvað  við höndina, það tek ég undir.

  20. Benedikt skrifar:

    Er ekki líklegra að ólukkans barnið hafi legið í kistu, frekar en kassa?

  21. Jóhanna Geirsdóttir skrifar:

    Hef ekki ljóðasafnið hans við „hendina“…
    Hönd beygist svo: hönd – hönd – hendi – handar

    Því væri rétt að segja: Hef ljóðasafnið hans ekki við höndina

    Þakka frábæra málfarspistla og skemmtileg skrif 🙂

  22. Eiður Svanberg Guðnason skrifar:

    Gráturinn var leiðréttur í  níu fréttum. Þá  var hinsvegar sagt: Faðir barnsins, sem var drengur… Var barnið sveinbarn, — eða var faðirinn drengur ?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>