«

»

Molar um málfar og miðla 1651

 

,,Köfunarmenn sem fóru niður að flaki farþegaþotu Air Asia flugfélagsins sem hrapaði í Javahafi fundu í dag flugrita flugvélarinnar.” Þetta mátti lesa á fréttavef Ríkisútvarpsins á sunnudag. Síðar var þetta lagfært  og köfunarmönnum breytt í kafara.   En áfram stóð í fréttinni að flugvélin hefði hrapað í Javahafi. Vélin hrapaði í Javahaf eða Jövuhaf. Fréttastofan þarf að gera betur en þetta.

 

Í áttafréttum Ríkisútvarps (12.01.2015) var talað um þrjú verðlaun. Það virðist vera erfitt að læra þetta. Þrenn verðlaun, hefði þetta átt að vera. Orðavin sendi Molum þetta sama dag: ,,Talandi um fleirtöluorð. Í frétt ríkisútvarpsins http://www.ruv.is/frett/boyhood-sigursael-a-golden-globe

er þrisvar talað um tvö verðlaun”. Molaskrifari þakkar ábendinguna.

 

Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins þennan saman morgun var okkur sagt að færðin í Reykjavík væri agaleg, – það hafði snjóað. Einnig var flest ef ekki allt í sambandi við handboltamót í Qatar sagt bæði stórkostlegt og dásamlegt! Hvernig væri að gæta svolítið meira hófs í orðavali?

 

Af mbl.is (11.01.2015): Voru þau vistuð í fanga­geymslu vegna rann­sókn máls­ins. Beygja, beygja .. Voru þau vistuð í fangageymslu vegna rannsóknar málsins. Meira af mbl.is sama dag: Bíl­velta varð á Suður­lands­vegi rétt aust­an við gatna­mót­in við Skeiðaveg um sjöleytið í kvöld. Molaskrifari hefur aldrei kunnað að meta það orðalag að bílvelta hafi orðið. Bíll valt á Suðurlandsvegi ….

 

Meira af mbl.is (11.01.2015): ,, Búið er að loka veg­in­um um Sand­skeiði, Hell­is­heiði og Þrengsli.” Veginum um Sandskeiði! Það var og! http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/01/11/heillisheidi_og_threngsli_lokud/

Vitnað er í heimasíðu Vegagerðarinnar. Þar segir hinsvegar: ,,Lokað er á Sandskeiði, Hellisheiði og í Þrengslum annars er hálka eða snjóþekja mjög víða á Suðurlandi og einhver skafrenningur.” Þarna hefur greinilega viðvaningur, fréttabarn, eins og stundum er sagt, verið á vaktinni. Mbl.is þarf að vanda sig meira.

 

Borganöfn eru birt á veðurkortum Stöðvar tvö, – bæði austan hafs og vestan. Ríkissjónvarpið ræður líka yfir þessari tækni, en sýnir ekki borganöfn. Skrítið. Minnir þó að Birta Líf veðurfræðingur hafi einu sinni gert það. Sýnt að þetta er mögulegt. Hún hefur brotið upp á nýjungum í veðurfréttum, – sem er af hinu góða.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>