Úr tíu fréttum Ríkisútvarps á laugardagskvöld (17.01.2015): Einn þeirra sem handtekinn var í Aþenu í kvöld svipar til Abaaoud og hafa lífsýni verið send til Belgíu. Hér hefði að mati Molaskrifara átt að segja: Einum þeirra … svipar til … Einhverjum svipar til einhvers, einhver líkist einhverjum.
Útvarpshlustandi skrifaði (17.01.2015): ,,Hlustaði á spurningaþáttinn Gettu betur í útvarpinu í vikunni. Þar var spurt um nafn höfuðborgar Flórídafylkis. Ef ég man rétt þá er talað um Bandaríkin, ekki Bandafylkin”. Molaskrifari þakkar bréfið og minnir á að hann hefur stundum nefnt einmitt þetta sama. Í Banríkjunum eru ekki fylki, heldur ríki, (e. states). Honum hefur þá verið andmælt með þeim rökum, að það væri gömul málvenja að tala um fylki í Bandaríkjunum. Má vera, en Molaskrifari er samt á því að tala eigi um ríki en ekki fylki í Bandaríkjunum. Fylki eru hins vegar í Noregi.
Í miðnæturfréttum Ríkisútvarps á laugardagskvöld (17.01.2015) var sagt: Þykknar upp suð- og vestanlands. Þetta rímar ekki við málkennd Molaskrifara. Betra hefði verið að segja, til dæmis: Þykknar upp sunnan- og vestanlands.
Sjá: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/01/18/24_letust_i_rutuslysi/
Hörmulega illa skrifuð frétt á mbl.is (18.01.2015). Gæðaeftirlit er oft ekki til staðar á þessum fréttamiðli, frekar en öðrum – allra síst um helgar.
Undarleg auglýsing á Rás tvö í Ríkisútvarpinu hefst á aðvörunarpípi eins og í reykskynjara. Er tilgangurinn að skjóta fólki skelk í bringu eða gera því bilt við? Það síðarnefnda tókst hvað Molaskrifara varðar. Auglýsingastofa Ríkisútvarpsins er víða á hálum ís.
Úr hádegisfréttum Bylgjunnar (19.01.2015). ,, … þaðan sem hinar öfgafullu hreyfingar eiga upptök sín.” Þarna hefði átt að segja: … þar sem hinar öfgafullu hreyfingar eiga upptök sín .
,,Þetta er allt undir control”, sagði formaður fjárlaganefndar í útvarpinu. Hún sagði líka að Íslendingar ættu ekki að taka niður fyrir sig með því að sækja um aðild að ESB! Það var og!
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
20/01/2015 at 10:34 (UTC 0)
Má vel vera S.O. Man ákaflega vel eftir þessari bók. Gleypti hana í mig. Fannst hún einna best ,,Bláu bókanna“. Kannski ætti frekar að ,,counties“ sýslur????
Sigurður Oddgeirsson skrifar:
20/01/2015 at 10:22 (UTC 0)
Fyrir um 65 árum var gefin út unglingabókaflokkur, sem hét „Bláu bækurnar“. Þar í var sagan „Jói gullgrafari“. Jói var auðvita bandaríkja-strákur á leið til Kaliforníu í leit að gulli.
Þegar þar var komið sögu að Jói var kominn langleiðina til fyrirheitna landsins, birtist í tjaldbúðum hinna tilvonadi gullgrafara, mannspersóna, sem ekki virtist vera við alþýðu skap, og Laxness myndi sennilaga kalla „umslóbógas). Hann kynnti sig sem hinn ógnvekjandi svipumann frá Fleinafylki. Þar hefur þýðandinn sennilega verið að þýða orð, sem notuð eru um héruð þau, sem mynda ríki bandaríkjanna. Noregur samanstendur af fylkjum, hin sjálfstæðu ríki bandaríkjanna samanstanda af fylkjum þ.e. counties t.d. King County in State of Washington. County = fylki. Getur þeta verið tilfellið????