«

»

Molar um málfar og miðla 1664

 

Trausti Harðarson vakti athygli á þessari frétt (29.01.2015) á dv.is: http://www.dv.is/frettir/2015/1/29/straeto-bs-breytir-leidakerfinu-nemendur-geta-loksins-maett-rettum-tima/

„Verð með strætó til Reykjavíkur kostar 1.400 kr.-“
Jæja já!
Er kannski hægt að kaupa tvö verð í einu? –   Ja, hérna.  Er nú verðið farið að kosta?  Þakka ábendinguna, Trausti.

 

Guðmundur Guðlaugsson skrifaði (29.01.2015): ,,Oft og iðulega heyrist í Ríkisútvarpinu orðalag eitthvað þessu líkt, að eitthvert ríki(þessa dagana Grikkland) ætli að fara úr evrunni eða ganga úr evrunni. 
Ég veit ekki hvort þú hefur veitt þessu athygli en mér finnst þetta orðalag fyrir neðan allar hellur. Ég hélt að ríki hættu að nota þennan gjaldmiðil eða hinn.
Ef við Íslendingar ætluðum að taka upp nýjan gjaldmiðil og hætta að nota krónu þá yrði sennilega sagt í fréttatímum að Íslendingar ætli að ganga úr krónunni. 
Er ekki starfandi málfarsráðunautur hjá Ríkisútvarpinu?” Molaskrifari þakkar Guðmundi góða ábendingu. Hjá Ríkisútvarpinu starfar málfarsráðnautur. Rétt er það. Vonandi les hann þetta.

 

Ekki verður annað sagt en að alþingismaðurinn Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar vandi málfar sitt. Þetta er úr DV (28.01.2015) : ,, Vigdís Hauksdóttir segir að áhlaupið hafi orðið til þess að hún fái aldrei framar póst frá Landvernd. „Þeir sem stunda þetta eru bara flokkaðir forever,“ segir hún við DV …  Kannski hefur eitthvað skolast til hjá blaðamanninum, eða þetta er prentvilla, konan sagði sennilega blokkaðir forever. Hún átti  við að lokað væri á tölvupóst frá þeim sem þarna eiga hlut að máli. Sjá: http://www.dv.is/frettir/2015/1/28/vigdis-blokkadi-landvernd/

Óþarfar enskuslettur hjá þingmanninum.

 

Ræddu um langvarandi og traust ríkjanna, var fyrirsögn á visir.is (28.01.2015). Um þessa fyrirsögn er svo sem ekki mikið annað að segja en að hún er asnaleg og ónothæf. Langvarandi hvað? http://www.visir.is/raeddu-um-langvarandi-og-traust-rikjanna/article/2015150128945

Gæðaeftirlitinu, yfirlestri ábótavant, sem er reyndar ekki nýtt.

 

Molaskrifari gerir það að tillögu sinni að Egill Helgason og hans góða samstarfsfólk hjá Ríkissjónvarpinu verði gert út af örkinni með nesti og nýja skó  til efnisöflunar í Færeyjum næsta sumar. Það er löngu tímabært að gera mannlífi og menningu í Færeyjum verðug skil í sjónvarpinu, – og bæta fyrir þættina frá Færeyjum, flandurþættina, sem sýndir voru í fyrra, – þeir voru hvorki fugl né fiskur og er þá einkar mildilega til orða tekið.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Hverju orði sannara, Steini!

  2. Steini skrifar:

    http://www.mbl.is/smartland/matur/2015/01/30/velferd_kjuklinganna_er_i_fyrirrumi/

    Sæll Eiður, í þessari grein er talað um að „gefa upp starf sitt“ í merkingunni að hætta því. Þetta er enska (give up ones job) og ekki boðlegt í fjölmiðli. Fleira er aðfinnsluvert, s.s. að segja að viðmælandinn sé „menntaður lögfræðingur..“. Nóg að segja lögfræðingur. Það felur sálfkrafa í sér að þeir hafi menntun. Við segjum ekki að Jón Jónsson tannlæknir sé menntaður tannlæknir er það nokkuð?
    Og heldur ekki „..eins og venjan þykir.“ Þarna er verið er að rugla saman venja þykir og venjan er.

    Blaðamenn og -konur hafa ekki nógu gott vald á þeirri tungu sem þau tjá sig á. Þetta á sér rætur í því að fólk í þessari starfsstétt les of lítið. Einum kennt, öðrum bent eftir Þórberg Þórðarson væri góð byrjun.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>