Sjúklingar eru svæfðir og þeim haldið sofandi meðan þeir eru skornir upp, eins og sagt var hér áður fyrr. Mikið slösuðu, eða fárveiku, fólki er nú orðið stundum haldið sofandi sólarhringum saman til að flýta bata og auka lífslíkur. Það er er pempíumál að tala um að svæfa dýr þegar verið að aflífa þau vegna þess að þeim er ekki hugað líf.
Magnað er fréttamat Fréttastofu RÚV (27.08.2009) þegar sagt er frá því að sex manns hafi mótmælt á Ráðhústorginu á Akureyri !
Erfitt á Molaskrifari með að fella sig við hvernig íþróttafrétttamenn (26.08.2009) nota orðið áskorun. Stutt er í næstu stóru áskorun liðsins, var sagt í íþróttafréttum RÚV sjónvarps. Stutt er í næsta stórleik liðsins, hefði mátt segja.
Hann varð aldrei forseti líkt og eldri bróðir sinn, sagði fréttaþulur RÚV í tíu fréttum (26.08.2009). Algeng villa. Hann varð aldrei forseti líkt og eldri bróðir hans.
Þorgrímur Gestsson,rithöfundur, sagði í athugasemd: „…hvernig væri að hamra á muninum á hlutafé og hlutabréfum? Á þessum undarlegu hlutabréfatímum, þegar allt slíkt er verðlaust, er eilíft talað um að kaupa eða selja „hlutafé“. Auðvitað versla menn með hlutabréf eða hluti í fyrirtækjum.“ Þetta er rétt, Þorgrímur. Hlutabréf er bara blað til staðfestingar á því að handhafi eða skráður eigandi eigi svo og svo mikið hlutafé í tilteknu fyrirtæki, þ.e. hafi lagt fram fé til stofnunar eða reksturs fyrirtækis. Hlutabréfið er bara kvittun fyrir því.
Venjulega er talað um að eitthvað breiðist út eins og eldur í sinu, þegar eitthvað breiðist mjög hratt út. Sina er þurrrt , dautt gras og eldfim. Tvívegis, fyrst í útvarpi og svo í DV (26.08.2009), var hinsvegar tekið svo til orða að e-ð hefði breiðst út eins og eldur um sinu. Nú er þetta vissulega auðskilið og engan veginn rangt. En hversvegna breyta þessu orðatiltæki sem löng hefð er fyrir í málinu ? Í þessum efnum er Molaskrifari mikill íhaldsmaður.
10 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
30/08/2009 at 10:14 (UTC 1)
Kærar þakkir fyrir framlag þitt, Steini Briem. Jón G. Friðjónsson stendur fyrir sínu, – og vel það.
Steini Briem skrifar:
30/08/2009 at 04:12 (UTC 1)
Morgunblaðspistlar Jóns G. Friðjónssonar:
Umsjónarmanni þykir þýðingin það lafir á meðan ég lifi bráðsnjöll …
Íslenskt mál – 98. þáttur.
Umsjónarmanni þykja þessi dæmi ekki til fyrirmyndar …
Íslenskt mál – 64. þáttur.
Steini Briem skrifar:
30/08/2009 at 03:15 (UTC 1)
Morgunblaðspistill Jóns G. Friðjónssonar 29. janúar 2005. Með því að smella á nafn hans efst á síðunni er hægt að lesa alla pistlana:
Íslenskt mál – 44. þáttur
Eygló skrifar:
30/08/2009 at 03:14 (UTC 1)
Þetta var aldeilis frábært Steini Briem, takk kærlega fyrir þetta. Eftir þessari reglu fór ég alltaf, þangað til einhver hefur kennt mér vitleysuna. Nú tek ég aftur upp gamla og góða siði. Vonandi hef ég ekki óhreinkað málvitund einhvers.
Væri nokkuð hægt að véla ykkur til að leiðbeina mér varðandi t.d. að þykja eitthvað gott. Segir maður „mér þykja rækjur góðar“ eða „mér þykir rækjur góðar“
Ég hef alltaf gengið út frá þeim sem talar (mér) en ekki umtalsefninu. Í öllum slíkum tilvikum held ég að ég noti það, en hef verið leiðrétt án þess að hafa tilfinningu fyrir „réttu“ eða „röngu“
Lumar nokkur á fróðleik um þetta?
JS skrifar:
29/08/2009 at 18:26 (UTC 1)
Sögnin að svæfa er notuð um aflífun dýra sökum aðferðarinnar sem er oftast beitt. Dýrin eru bókstaflega svæfð á sama hátt og sjúklingar sem verið er að undirbúa undir aðgerð. Þegar dýrið er sofnað og eingöngu lágmarks líkamsstarfemi hjá dýrinu er því gefin annar eins skammtur „svefn“lyfs, sem slekkur á líkamsstarfseminni að fullu.
Að minnsta kosti er þetta sú skýring sem sem ég hef oftast heyrt.
Hrúturinn skrifar:
29/08/2009 at 16:32 (UTC 1)
Ég skal virða það. Rann svo í skap að ég tók ekki eftir orðinu „helst“ hjá en geri gæfumuninn meistari. Hrútar eru réttlausir nema einn mánuð á ári. Hins vegar er Hrútur eins og karl faðir SINN að hann bakkar ekki nema með rökum. Enda sauðheimskir báður. Þenna debatt vann ég ég raunar strax í MS er ég lenti í illdeildu við Pál íslenskukennara, sem leitaði meira að segja á náðir samkennara eftir að hrútsornin í rassinn. En Hrúturinn hafði sigur. Kannski var sá tími ársins.
Eiður skrifar:
29/08/2009 at 10:19 (UTC 1)
Hrútur, ég rökræði helst ekki við fólk sem ekki kemur fram undir nafni.
Eygló skrifar:
29/08/2009 at 04:01 (UTC 1)
Sagt er að nota megi þessi orð að jöfnu. Þó þannig að ekki verði líkur á misskilningi.
Mér finnst t.d. mjög „ljótt“ að segja „hann er alveg eins og pabbi sinn“, en það er víst jafn rétthátt og „pabbi hans“. Allt fer þetta eftir aðstæðum og stundum smekk.
hruturinn skrifar:
29/08/2009 at 03:49 (UTC 1)
Hvað rök eða reglur færir þú fyrir því að að rangt sé að nota „sinn“ í stað hans? Segjum:Teddy varð aldrei forseti eins og eldri bróðir hans. Spyr: Hans hvers?
Eygló skrifar:
28/08/2009 at 23:03 (UTC 1)
Ég held að megi fullyrða að so. „að svæfa“, sem manni finnst e.t.v. vera mildun (veigrun) í frásögn af aflífun (deyðingu), sé eldgamalt orð yfir aflífun skepna. Í þá tíð voru þó aðferðirnar heldur óhugnanlegri okkur nútímabörnum.
Auðvitað er hægt að nota hvert þessara orða sem vill; samheiti gerið svo vel að velja eftir smag og behag