Það hefur verið mikið um óveðursfréttir í öllum miðlum undanfarinn sólarhring. Það er mikill vindhraði hér núna ,sagði fréttamaður RÚV (09.10.2009) sem staddur var á Kjalarnesi. Betur hefði Molaskrifari kunnað að meta ef fréttamaður hefði til dæmis talað um mikið hvassviðri eða ofsarok. Í Vefmogga (09.10.2009) var sagt að vindmælir undir Hafnarfjalli væri bilaður og vegfarendum bent á mæli Veðurstofunnar við Hafnamela. Hafnarmela hefði átt að segja. Síðan segir: Einnig er veðurstöð við Hvamm undir Eyjafjöllum bilaður. Veðurstöð er kvenkynsorð og þess vegna er hún biluð, ekki bilaður. En svo kemur rúsínan í pylsuendanum Líklegt er talið að veðurofsinn valdi því að veðurstöðvarnar biluðu. Skarpur maður sem þetta skrifar og hefur greinilega ekki mikla trú á lesendum.
Í Garðapóstinum,sem Molaskrifara barst í dag (09.10.2009), er viðtal við formann Sjálfstæðisfélags Garðabæjar og allt gott um það. Fimm dálka fyrirsögn er á viðtalinu: Áræðni og sköpunarkraftur þarf að ganga í eina sæng með áreiðanleika og raunsæi. Ekki eins gott. Þarna ætti að standa: Áræðni og sköpunarkraftur þurfa að ganga í eina sæng með…
.Í fréttum Stöðvar tvö (09.10.2009) var fjallað um friðarsúlu í Viðey og talað um að tendra á súlunni.Má vera að þetta sé ekki rangt, en eðlilegra hefði Molaskrifara fundist að tala um að tendra ljósið sem myndar friðarsúluna.
Fréttaflutningur Sjónvarps RÚV (09.10.2009) af greinargerðinni sem forsætisráðherra óskaði eftir frá Seðlabanka og Efnahags-og viðskiptaráðuneyti var furðulegur og er Molaskrifari líklega ekki einn um þá skoðun. Hversvegna var til dæmis formaður Sjálfstæðisflokksins ekki spurður hvernig hann vildi bregðast við Icesave? Formaður Framsóknar talaði um hótunarbréf, en svo segja menn í hinu orðinu að það hafi alls ekkert nýtt komið fram í þessum greinargerðum.
Molaskrifara þótti ekki þungt pundið í Kastljósi föstudagskvöldsins.
Endemis villa var í miðnæturfréttum RÚV á föstudagskvöld þegar sagt var að hinn frægi norski Framsóknarmaður Per Olaf Lundteigen væri forseti norska Stórþingsins. Hann er ekki einu sinni einn af fimm varaforsetum þingsins ! Forseti norska Stórþingsins er Dag Terje Andersen, þingmaður Verkamannaflokksins. Hvernig í ósköpunum komast svona villur í fréttir?
Af heimasíðu Stórþingsins:
Stortingets presidentskap ble valgt på konstituerende møte i Stortinget 8. oktober
Den nye stortingspresidenten er Dag Terje Andersen (A). I tråd med nye bestemmelser i Stortingets forretningsorden, ble det valgt fem visepresidenter. Første visepresident: Øyvind Korsberg (FrP).Andre visepresident: Per-Kristian Foss (H).Tredje visepresident: Marit Nybakk (A).Fjerde visepresident: Akhtar Chaudhry (SV).Femte visepresident: Line Henriette Hjemdal (KrF). Videre ble Tor-Arne Strøm (A) valgt som sekretær og Karin S. Woldseth (FrP) som visesekretær.
Sama vitleysan var svo endurtekin í fréttum klukkan 06 00 (10.10.2009). Ekki heyrði Molaskrifari að hlustendur væru beðnir afsökunar á þessari rangfærslu. Það er heldur ekki til siðs í Eftsaleitinu að viðurkenna mistök ,nema í algjörum undantekningartilvikum.
Þetta eru ekki þau vönduðu vinnubrögð sem eigendur RÚV krefjast af stofnun sinni.
5 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður Svanberg Guðnason skrifar:
11/10/2009 at 09:54 (UTC 1)
Hárrétt athugasemd , Pétur. Þetta fór framhjá mér. Einblíndi líklega um of á sögnina að þurfa.
Eiður Svanberg Guðnason skrifar:
10/10/2009 at 20:17 (UTC 1)
Það er allt á sömu bókina lært hjá Framsókn.
Pétur Ástvaldsson skrifar:
10/10/2009 at 16:55 (UTC 1)
Sæll, Eiður.
Í fyrirsögn Garðapóstsins hefði með réttu átt að standa áræði en ekki áræðni; þetta er mjög algeng villa. Minnir dálítið á þegar menn tala um næmni, og þá í kvenkyni, í staðinn fyrir næmi, sem er hvorugkyns.
kv.
Pétur Ástvaldsson
Bjarni Sigtryggsson skrifar:
10/10/2009 at 12:50 (UTC 1)
Sæll Eiður. Hjó eftir þessu sama með norska þingforsetann. Skýringin er eflaust sú að of margir fréttamenn „halda“ eitthvað eða þykjast muna það, og láta það flakka án þess að ganga úr skugga um hið rétt.
Annað dæmi um þingmann og ónákvæmni eða vanþekkingu: NetVísir saði í gær af brasilískum sjónvarpsmanni, sem reyndist vera bæði eiturlyfjasali og morðingi: „Souza er frægur sjónvarpsmaður auk þess sem hann var kjörinn fulltrúi í Amazon fylki í Brasilíu. Því var hann friðhelgur fyrir öllum ákærum þangað til fyrir mánuði síðna. Þá var hann sviptur pólitískri stöðu sinni og friðhelginni þar með.“ Í fréttastofuskeyti um málið segir, á ensku: „he enjoyed parliamentary immunity as a deputy of the Amazonas state assembly. „
Þessi sjónvarpshetja, sem hafði flúið réttvísina en náðist og situr nú inni, hafði verið kjörinn varamaður á þing Amazonas sambandshéraðs (eins af 27 fylkjum eða héruðum í Brasilíu) og naut friðhelgi frá málssókn sem slíkur, þar til þingið svipti hann þinghelgi eftir að mál hans kom upp.
Orðið' „representative“ hefur fleiri en eina merkingu og í þessu tilviki merkir það“þingmaður. „Deputy“ merkir þá væntanlega varaþingmaður, enda starfaði þessi sem sjónvarpsmaður að aðalstarfi.
Ruth Fjeldsted skrifar:
10/10/2009 at 10:55 (UTC 1)
Mér þykir alltaf skemmtilegt að lesa athugasemdir þínar og þenkingar, einkum hvað varðar íslenskt mál. Mig langar til að koma aðeins inn á sögnina að tendra (ljós). Einhverra hluta vegna eru ljós tendruð með eldspýtum í mínum huga, en ragmagnsljós eru kveikt með því að ýta á takka.
KV. RF