«

»

Molar um málfar og miðla CLXXIV

  Vinsamleg ábending til fréttastofu RÚV: Togbátur er ekki dráttarbátur eins og sagt var í hádegisfréttum (12.10.2009). Togbátur er fiskiskip,sem veiðir með botnvörpu, sem skipið dregur eða togar á eftir sér. Togbátur, eða trollbátur eins og áður var sagt ,er minni en togari.. Dráttarbátur er skip sem er hannað til þess að draga önnur skip eða pramma. Dráttarbátur getur tekið skip í tog, en við það verður hann ekki togbátur. Skipið eða báturinn var sagt í eigu Polar Seafood, sem ekki er líklegt að geri út dráttarbáta , eftir nafni fyrirtækisins að dæma. Fréttaskrifari sem  heldur að togbátur sé dráttarbátur ætti að einbeita sér að skrifum um efni sem ekki snerta skip og sjómennsku. Fréttastofa RÚV hefur ekki efni á því að verða að athlægi.

                                                                                                                    

Amböguflóran í fréttum Stöðvar tvö var óvenju auðug á sunnudagskvöldið (11.010.2009). Nokkur dæmi (ambögurnar voru fleiri): .. geti átt von á málsókn vegna setningu neyðarlaga. Ætti að vera vegna setningar neyðarlaga. … sprengjuvesti,sem minnstu munaði að hann náði að sprengja. Ætti að vera næði að sprengja. Tveir hópar lentu saman. Ætti að vera: Tveimur hópum lenti saman. Voru viðvaningar á vaktinni sem ekki voru þeim vanda vaxnir að semja óbrenglaða texta ?

 

Í fasteignaauglýsingum Fréttablaðsins er heldur aulaleg auglýsing: Heimili fasteignasala hefur í einkasölu  rúmlega 200 fermetra sérhæð… Þetta hljómar eins og heimili fasteignasala  sé að selja sérhæð. Eðlilegra orðalag væri: Fasteignasalan Heimili er með 200 fermetra sérhæð í einkasölu..

 

Nú er Morgunblaðið farið að blanda saman pólitík og fréttum í þeim mæli sem ekki hefur sést síðan gamli Þjóðviljinn, málgagn íslenskra kommúnista var á dögum. Kannski er Morgunblaðið að breytast í einhverskonar blöndu af bandarísku sjónvarpsstöðinni FOX og gamla Þjóðviljanum, blöndu  sem er krydduð með keimi af AMX og ÍNN. Það er heldur bragðvond blanda.

  

Einföld leit á norskum vefmiðlum leiðir í ljós að lítið sem ekkert  hefur verið fjallað um fýluferð Framsóknarmanna til Noregs. Formaður Framsóknar skrökvaði því blákalt að hlustendum í hádegisdfréttum RÚV (12.10.2009) að ítarlega hefði verið fjallað um bréfaskipti forsætisráðherranna í norskum fjölmiðlum. Það er ósatt og ekki það eina sem var ósatt í því sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði.

Norski fréttavefurinn ABC nyheter virðist ekki vera vandari að virðinginu sinni en Framsóknarferðamennirnir. Á vefnum er (12.10.2009) snúið út úr bréfaskiptum forsætisráðherra Íslands og Noregs. Svo segir þar að Íslendingar vilji lán frá Noregi og er vísað á fréttaavef norska  ríkisútvarpsins NRK og sagt : De fleste islendingene ønsker lån fra Norge, melder NRK.no  en sé farið á fréttavef NRK sést að verið er að vitna í skoðanakönnum þar sem í ljós kemur  að margir Íslendingar vilja að Norðmenn fjárfesti á Íslandi. Þar er ekkert talað um lán. Á vef norska Ríkisútvarpsins segir: I den sammenheng viser undersøkelsen at det er et tydelig ønske med investorer fra Norge. Blant islendinger flest topper et ønske om investorer fra Skandinavia, og i tillegg til at et ønske om investorerer fra Skandinavia innebærer investorer fra Norge, er det mange som spesifikt trekker fram Norge.

Mye av den samme holdningen finner vi blant næringslivsledere på Island.

På et eget spørsmål om islendingene er for eller mot norske investeringer på Island, svarer 50% av isledninger flest at de er sterkt for mens 58% av næringslivsledere har denne meningen.

Þetta er undarleg fréttamennska að ekki sé fastar að orðið kveðið. Þetta er eiginlega fréttafölsun. En í rauninni er hún á sama stigi og frásögn Framsóknarmannanna af Noregsferðinni sem nú er að endemum fræg..

  

3 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Jóhannes Laxdal Baldvinsson skrifar:

    Íslenzkan á því miður í vök að verjast. Ungt fólk hefur ekki áhuga á að tala eða skrifa rétt mál og orðaforði þeirra miðast við nauðsynleg orð til að tjá sig. Við erum nú þegar búin að ala upp eina kynslóð af Íslendingum með lélega íslensku kunnáttu svo það er einsýnt hvert stefnir.  Eitt sinn hringdi ég inn athugasemd til Fréttastofu Bylgjunnar vegna rangrar fallbeygingar á sögninni að valda. Þrátt fyrir það hljómaði fréttin óbreytt allan þann dag í öllum þeirra fréttatímum. En þakka þér fyrir pistlana og vonandi taka þeir til sín sem eiga

  2. Eiður Svanberg Guðnason skrifar:

     Það er gott hald í kratismanum, Bjarni, segir  íhaldssamur krati.

  3. Bjarni Kjartansson skrifar:

    Þörf ábending til manna hjá RUV.

    Samt eru þar menn sem ég veit, að þekkja til atvinnuhátt okkar.

    Ambögur  eru margar og mér er farið að lítast svo á, að varla sé lengur um rasbögur að ræða, þar seem fréttir eru ekki ætíð skrifaðar í asa og fáti og því þurfi fre´tamenn ekkert að rasa um ráð fram.

    Enn þakka ég skemmtilega pistla, svona fyrir utan kækbundnar afsakanir á Kratismanum bölvuðum.  Þar verðum við svosem vart ætíð sammála og virði ég það.

    Miðbæajríhaldið

    Vill halda í það sem hald er í en henda hinu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>