Úr Vefmogga (16.10.2009): Slökkviliðið kom umsvifalaust á staðinn og hafði ráðið niðurlögum eldsins á innan við 10 mínútur. Eldurinn hafði breiðst út í hálm á túninu og þurfi einnig að slökkvi í því. Við þetta er eiginlega engu að bæta !
Úr Vefdv 16.10.2009): Gunnari sagðist þykja vænt um alla Selfyssinga. Hér ætti að standa: Gunnar sagði að sér þætti vænt um alla Selfyssinga. Búinn að heyra tíu sinnum í fréttum að fundarmenn á stuðningsfundi við klerk hafi í upphafi fundar sungið Fyrr var oft í koti kátt. Skil ekki alveg samhengið.Af hverju sungu þeir ekki: Ó,Jesús, bróðir besti ,og …..? Það hefði átt betur við fundarefnið.
Í fréttum RÚV sjónvarps um bankamál (15.10.2009) var talað um stórar kröfur. Venjulegra og réttara, að mati Molaskrifara, er að tala um háar kröfur. Meira um bankamál. Í Fréttablaðinu (15.10.2009) segir: Lán Glitnis til fyrrverandi og núverandi starfsmanna bankans hleypur á milljörðum króna. Hér hefði betur verið sagt: Lán Glitnis til fyrrverandi og núverandi starfsmanna bankans nema milljörðum króna, eða skipta milljörðum.
Umfjöllun Kastljósi kvöldsins (15.10.2009) þar sem rætt var um erlendu stúlkuna, sem ekki hefur spurst til síðan á mánudagskvöld bætti nákvæmlega engu við það sem sagt hafði verið í fréttum örskömmu áður. Í Kastljósi talaði spyrill um að fólk hefði verið að spá mikið í þessu máli. Þetta heyrist æ oftar. Molaskrifara finnst eðlilegra að tala um að spá í eitthvað fremur en að spá í einhverju.
Í matreiðsluþætti RÚV sjónvarps (15.10.2009) var talað um niðursoðinn túnfisk og sagt að hann hefði langan gildistíma. Svolítið einkennilegt orðalag. Átt var við að túnfiskurinn geymdist lengi, hefði langan geymslutíma ,mikið geymsluþol.
Alþingismaður bloggar (15.10.2009): Þar rekur hún meðal annars tilurðina að stofnun Háskólasetursins…Ekki kann Molaskrifari við orðið tilurð í þessu samhengi. Eðlilegra hefði verið að segja: .. tildrögin að stofnun… eða að dragandann að stofnun Háskólasetursins…
Það var góð fyrirsögn í Vefmogga (16.10.2009) um skipskex sem bakað er á Íslandi en selt í Færeyjum , að það seldist eins og heitar lummur.
Í morgunþætti Rásar eitt var (16.10.2009) var spjallað við fyrrum málfarsráðunaut RÚV um daglegt mál. Fróðlegt spjall, en Molaskrifari getur hreint ekki tekið undir að orðið brotaþoli sé betra orð en fórnarlamb um þann sem sætir (saklaus) þjáningum eða dauða eins og segir þeirri útgáfu Íslensku orðabókarinnar,sem Molaskrifari hefur nærtæka þar sem hann skrifar þetta. Orðið brotaþoli finnst Molaskrifara lögregluskýrslulegt lögfræðingamál.
Það segir sitt um stöðu mála að það skuli vera fréttaefni að forsetanum sé ekki illa tekið er hann fer um landið og ræðir við fólk. Auðvitað reynir fólk að sýna honum kurteisi, en þetta losar forsetann ekki við klappstýrustimpilinn né deyfir það minningar um dekur hans við spillingarliðið og veisluhöld á Bessastöðum fyrir vafasama karaktera, innlenda sem erlenda á kostnað skattborgara. Orðstír hans í þeim efnum verður líklega langlífur.
7 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Steini Briem skrifar:
17/10/2009 at 22:11 (UTC 1)
Kynleg er sú klappstýra,
kelaði við útrásarfýra,
erfitt nú að útskýra,
engin á skarinu týra.
Steini Briem skrifar:
17/10/2009 at 21:35 (UTC 1)
Rómverskar tölur
Sigrún Guðmundsdóttir skrifar:
17/10/2009 at 20:30 (UTC 1)
Alltaf mjög áhugaverðir málfarspislarnir þínir Eiður. Hafðu þakkir fyrir.
En ég er alveg týnd í þessum rómversku tölum sem þú merkir þá með.
Birgir Örn Birgisson skrifar:
17/10/2009 at 13:35 (UTC 1)
http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/10/16/hord_gagnryni_a_biskupinn/
Séra Gunnar sagðist hafa talið að með dómi Hæstaréttar væri málinu lokið. Með lögum skal land byggja sögðu þeir gömlu Íslendingar og óvíst hvar lendir ef ekki er farið eftir niðurstöðu dómstóla. Það kann ekki góðri lukku að stríða að hafa tvenn lög í landinu.
🙂
Eygló skrifar:
17/10/2009 at 13:33 (UTC 1)
Auðvitað sýnir maður gestum, þótt maður hafi ekki sjálfur boðið þeim, kurteisi þótt maður kunni kannski ekki að hafa mikið álit á þeim. Svo er hægt að baktala fólk þannig að það verði einskis vart.
Spá í …..+ þgf breiðist hratt út. Tók einmitt kipp þegar Kastljósmaður sagðist hafa „spáð mikið í þessu„
Ég tel mér trú um að þetta sé ruglingur við „að pæla“ í einverju.
Tel þetta rugling við „að pæla“ (sem sumir halda að sé slangur; sé ekki íslenska)
Ég spái mikið í stjórnmál (þolfall)
Ég pæli mikið í stjórnmálum (þarna kemur loks þágufallið)
Vonandi skil ég þetta rétt. Allavega spái ég ekkert í karlmönnum
Haukur Kristinsson skrifar:
17/10/2009 at 13:17 (UTC 1)
Eftir allt sem á hefur gengið hér á skerinu síðustu árin, sem endaði með hruni þjóðarbúsins, þá fíflagangur strákanna hjá Framsókn CAPITAL í Noregi og núna bröltið á Selfossi vegna prestsins- Fyrr var oft í koti kátt-, styrkist ég í þeirri skoðun minni að eitthvað mjög alvarlegt sé að okkar samfélagi. Symbolic fyrir vitleysuna er svo karakterinn á Bessastöðum.
Birgir Örn Birgisson skrifar:
17/10/2009 at 13:16 (UTC 1)
Takk fyrir mig.