«

»

Molar um málfar og miðla 410

Svolítið villandi fyrirsögn var í mbl. is (21.09.2010) 100 ár síðan kona var tekin af lífi í Virginíu.  Þegar fréttin  er lesin,  kemur í ljós, að  fyrirhugað er að taka  konu af lífi í Virginíu, en  kona var síðast tekin af lífi þar fyrir  hundrað árum.  Fyrirsögnin var  ekki röng, en horft var framhjá aðalefni fréttarinnar.  Í fréttinni segir ennfremur: ….og hafi verið undir sterkum áhrifum frá sér klárari fólki þegar morðin, sem hún var dæmd fyrir, voru framin.  . Áhrifum frá sér klárara fólki ,væri  betra, en ekki gott.

Úr íþróttafréttum mbl.is (20.09.2010): Hvað gerðist í þessu atviki?„Þetta kallast að lesa leikinn, það gerði ég en ekki dómarinn. Boltinn datt fyrir framan mig og það koma tveir varnarmenn á fullri ferð í mig….   Það var og.

 Aðfaranótt  þriðjudags (21.09.2010) heyrði Molaskrifari brot úr endurteknu viðtali, (öllu fremur eintali Ólafs)  við Ólaf Ragnar  Grímsson  forseta Íslands í Útvarpi  Sögu. Í þeim stutta kafla,sem  Molaskrifari  hlustaði á  voru mýmargar staðreyndavillur. Ólafur  fór ekki einu sinni rétt með árið,sem hann fór í opinbera heimsókn  til Kína. Það var 2005 ekki 2006.  Það er  líka  rangt að allir sem komi  til Peking fái særindi í háls og nef vegna mengunar. Staðreyndir hafa    aldrei staðið  Ólafi Ragnari fyrir þrifum. Stjórnendur vissu ekkert í sinn haus.    Það rifjaðist upp við að hlusta á þetta, að   árið  2005 hafði Ólafur Ragnar ekki áhuga á að heimsækja  Xianiang þar sem unnið var að hitaveituframkvæmdum  á vegum  Íslendinga. En þá var Ólafur Ragnar heldur ekki búinn að finna upp hitaveituna.

  Hausthreingerningar standa  yfir í Útvarpi Sögu , því samkvæmt   því sem segir í Fréttablaðinu er  bæði búið að  reka  Sigurð G. Tómasson og Önnu Kristine Magnúsdóttur, — með SMS símaskilaboðum !

 Nú orðið  kynnir  Molaskrifari  sér   fyrst efni norrænu sjónvarpsstöðvanna í Mogga, áður en hann lítur á dagskrá Ríkissjónvarpsins. Það er þó tilhlökkunarefni að horfa á Kilju Egils  í kvöld.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>