«

»

Molar um málfar og miðla 412

Úr dv.is (22.09.2010): …og vantar stjórnarflokkunum aðeins tvö sæti til að tryggja sér hreinan meirihluta á sænska þinginu. Þetta köllum við íhaldsmenn um málfar  þágufallssýki, en  reiðarekssinnar telja  þetta rétt mál og  líklega   vandað orðalag.  Í anda þess að allt sem sagt er, – sé  rétt.

 Í fréttum Stöðvar tvö (22.09.2010) var sagt: Drengurinn var klæðalítill…  Þetta er  að sjálfsögðu ekki rangt, en Molaskrifari hefði fremur kosið, að hér hefði verið sagt í samræmi við málvenju: Drengurinn var klæðlítill.

 Í  fréttum Stöðvar tvö ( 22.09.2010) var ítrekað sagt,  að Rússar gerðu tilkall til Norðurskautslandsins. Það er ekkert land  á  norðurskautinu, bara hafís og líklega stöku vakir.  Enn eitt dæmið um vankunnáttu í  landafræði. Á suðurskautinu  er land. Ekki á norðurskautinu.

  Þegar fréttaþulur Stöðvar tvö (22.09.2010)  talaði um svonefnd hnoð, þegar fjallað var  um flugvélar var það eins og að tala um svonefndar skrúfur eða svonefnda nagla þegar  talað er um tréverk.  Líklega hafði sá sem skrifaði fréttina ekki hugmynd um hvað hnoð er.

Af pressan.is (23.09.2010): Þær upplýsingar fengust frá ráðuneytinu að ráðning Steindórs hafi borið brátt að. Ráðningin bar ekki brátt að. Hér hefði átt að segja ,að ráðninguna hefði borið brátt að. 

  Þótt mörg  íslensk fyrirtækjaheiti séu hnoð , til skammar  og tekin  beint úr úr ensku eru líka til  mýmörg prýðileg íslensk nöfn á fyrirtækjum.  Til dæmis nafnið á glerauganaversluninni,sem heitir Sjónarhóll í Hafnarfirði. Það er reyndar heiti hússins sem  Sjónarhólshjónin, þau Björn Eiríksson  og Guðbjörg Jónsdóttir reistu og þarna stendur enn.  Þar ráku þau verslun  og áður í timburhúsi sem vék fyrir því húsi sem þar stendur nú.  Þessi sæmdarhjón og mannvænleg börn þeirra voru  áberandi í Hafnarfirði á tuttugustu öldinni.

 Molaskrifari heyrði nýyrði í Útvarpi Sögu (23.09.2010), karakterheimska.Orðið var notað  til að lýsa Alþingi  Íslendinga, þinginu sem þjóðin hefur kosið.  Það skyldi þo ekki vera að þetta orði væri góð lýsing á  sumum sem hleypt er að hljóðnemanum í Útvarpi Sögu. Ruglið sem sent er út  frá Útvarpi Sögu á sér engin takmörk.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>