Þrátt fyrir allt leynist ýmislegt gott innan um íhalds- og afturhaldsbullið á ÍNN. Ingvi Hrafn sagði hlýlega og fallega frá erfiðum veikindum Jóns Arnar bróður síns, sem býr ásamt fjölskyldu sinni í Regina Sask. í Kanada. Þetta var vel gert ,Ingvi Hrafn, og snart alla, sem þekkja þetta góða fólk. Vonandi fær Jón Örn góðan bata. Við Eygló nutum gistivináttu þessara sæmdarhjóna á sínum tíma Í Regina. Það voru góðar stundir.
Hláleg málvilla er í frétt í mbl.is (24.09.20010). Þar segir: Árni Páll fór erlendis í morgun. Menn fara utan. Menn eru erlendis. Menn fara ekki erlendis. Hefur einhver heyrt talað um að fara hérlendis ? Moggi, Moggi, hvar ertu staddur ?
Í þáttum Péturs Gunnlaugssonar í Útvarpi Sögu Línan er laus,er orðið stjórnmálastéttin nefnt að meðaltali á fimm mínútna fresti. Í því felst alltaf lítillækkun þeirra sem komið hafa að stjórnmálum. Í þessum þætti var nýlega talað um karakterheimsku. Það er reyndar einkar lýsandi orð.
Embættismaður myrtur í New York, segir í fyrirsögn fréttar í mbl.is (24.09.2010). Fyrirsögnin er ekki röng, en hefði mátt vera skýrari. Það var erlendur sendimaður,sem var myrtur í New York. Það kemur fram í fréttinni.
Það er til marks um sagnfræðilegt meðvitundarleysi þeirra sem halda um stjórnvölinn í Ríkissjónvarpinu í Efstaleiti ,að ekki skuli sýndir einhverjir af þeim tugum heimildamynda, sem norrænu sjóvarsstöðvarnar sýna frá árum heimsstyrjaldarinnar síðari. Þessa þætti er áreiðanlega hægt að fá á viðlíka verði og amerísku drauga- og dellumyndirnar sem okkur er sífellt boðið að horfa á. Um hvað er þetta lið að hugsa ? Líklega er það ekki að hugsa.
Á sunnudagskvöld , samkvæmt boðaðri dagskrár norska sjónvarpsins NRK 2 gefst kostur á að hlýða á kínverska píanósnillinginn Yundi Li Hann veldur ekki vonbrigðum. Menningarmiðstöðin í Efstaleiti í Reykjavík býður þjóðinni upp á hvað á þessum sama tíma ? Fótbolta. Hvað annað !
Skildu eftir svar