Fasteignaauglýsingar geta verið skemmtilegar. Þessi er úr Fréttablaðinu (10.11.2010): Vel skipulögð 128.0 fm efri sérhæð auk 26.0 fm bílskúrs með tvennum svölum til suðurs. Þetta hlýtur að rokseljast. Hver vill ekki eiga bílskúr með tvennum svölum til suðurs?
Í þremur eða fjórum fréttatímum Ríkisútvarpsins (10.11.2010) var talað um mann sem féll fram af svölum íbúðarhúsnæðis. Það var ekki fyrr en í áttafréttum að fréttamaður með máltilfinningu kom á vaktina. Þá var réttilega sagt: … fram af svölum íbúðarhúss.
Faraldur er eitt þeirra orða ,sem fjölmiðlamönnum verður stundum hált á. Í morgunútvarpi Bylgjunnar (09.11.2010) var talað um innbrotafarald á Suðurnesjum. Orðið faraldur beygist, faraldur,faraldur,faraldri faraldurs. Það beygist ekki eins og karlsmannsnafnið Haraldur.
Það er nánast liðin tíð, að fréttaþulir í Ríkisútvarpi leiðrétti villutexta frá fréttastofu. Þetta gerðu þeir óhikað Jóhannes Arason og Jón Múli Árnason svo aðeins tveir séu nefndir. Margir aðrir góðir þulir gerðu þetta líka. Í áttafréttum Ríkisútvarpsins (09.11.2010) las þulur: Ísraelsstjórn hefur hafið byggingu 1300 nýrra heimila í austurhluta Jerúsalem og verða þau eingöngu úthlutað gyðingafjölskyldum. Við þessa setningu er tvennt að athuga. Ríkisstjórnir byggja ekki heimili. Þær geta látið byggja hús eða íbúðarhúsnæði. Fólk stofnar heimili. Byggir ekki heimili. Í öðru lagi segir: … og verða þau eingöngu úthlutað gyðingafjölskyldum. Þau verða ekki úthlutað, einhverju er úthlutað. Hér hefði farið betur á að segja til dæmis: Nýbyggingarnar eru eingöngu ætlaðar gyðingafjölskyldum.
BBC segir um ofangreint mál : Israel has revealed plans to build nearly 1,300 housing units for Jewish settlers in occupied East Jerusalem. BBC segir einnig …. plans for more than 1000 new homes have been approved.
Enn einn reynsluboltinn látinn fjúka af fréttastofu Ríkisútvarpsins. Nú var það Þórhallur Jósepsson fyrir að hafa skrifað bók um Árna Mathiesen. Best er að hafa bara nýgræðinga við störf.
Skildu eftir svar