«

»

Molar um málfar og miðla 456

Í myndatexta í bókarauglýsingu (Morgunblaðið 10.11.2010) stendur: Beitt á lóðir. Myndin er af manni að beita línu.  Vel má  vera að   málvenja sé einhversstaðar á landinu að taka  svona til orða.  Molaskrifari er vanur  að heyra talað um að beita  lóð eða  beita línu.  Ef til  vill mætti segja að fé  væri beitt á lóðir í Grafarholti !

 Enn einu sinni opinberaðist í  fréttum Ríkissjónvarpsins (10.11.2010) að  fréttamenn  skilja  ekki muninn á  stjórnaráðinu og  stjórnarráðshúsinu. Einkennilegt hve einfaldir hlutir geta  þvælst fyrir ágætlega greindu fólki.

 Stundum heyrist talað um að gera eitthvað upp á sitt einsdæmi.  Þegar  einhver gerir  eitthvað  einn,  af  eigin hvötum eða  frumkvæði er talað um að hann geri það upp á sitt eindæmi. Einsdæmi er  hinsvegar einstæður atburður. Þessu má ekki rugla saman.

 Oft  heyrir maður að  fyrirtækjanöfn  eru ekki beygð. Í auglýsingu í Ríkissjónvarpinu (10.11.2010) var talað um  vildarþjónustu Byr. Hér átti nafn Byrs auðvitað að vera í eignarfalli.

 Sögukunnáttan í Útvarpi Sögu  er oft ekki upp á marga  fiski. Þar var í morgunútvarpi (10.11.2010) talað um Svavar Gestsson fjármálaráðherra ,sem fellt hefði gengið fjórtán sinnum. Svavar Gestsson hefur gegnt ýmsum ráðherraembættum ,en aldrei verið fjármálaráðherra.  Í þessum sama morgunþætti var rætt  við manninn, sem  rak ólöglegan  veitingastað og varð uppvís að því að stela heitu vatni framhjá  mæli, en  dregur nú  hundruð milljóna skuldahala.  Hann var ekki spurður um heita vatnið eða  veitingastaðinn, –  að minnsta kosti ekki svo Molaskrifari heyrði. Kjarni viðtalsins var að Landsbankinn sýndi honum ekki nægan skilning.  Væri vondur við hann.

 Í kvöld (11.11.2010) býður  Ríkissjónvarpið upp á  þrjár  bandarískar þáttaraðir í beit. Þá er gott að eiga eitthvað í handraðanum , –  eins og  til dæmis píanósnillinginn Lang Lang sem lék Beethoven sónötur í norska sjónvarpinu sl. sunnudagskvöld.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>