Kastljós Ríkissjónvarpsins fór niður í flórinn í viðtalinu við Jónínu Benediktsdóttur (11.11.2010) Gaf henni margra milljóna króna ókeypis auglýsingu kvöldið áður en bók hennar kemur út. Hvað kemur þjóðinni karlafar þessarar konu við? Ekki baun. Það setti að manni ógleði í tvennum skilningi við að horfa á Ríkissjónvarpið leggjast svona lágt.
Í tíufréttum Ríkissjónvarps (10.11.2010) var talað um að leikskólastjórnendur væru áhyggjufullir fyrir… Betra hefði verið að segja: … áhyggjufullir vegna …
Hér var stundum hnýtt í einstaklega hallærislegar auglýsingar ferðaskrifstofunnar Iceland Express. Fyrirtækið hefur nú söðlað um. Auglýsingar þess nú um stundir eru hróss verðar, en keimlíkar eru þær auglýsingum Tals.
Til hamingju Borgarleikhúsið, segir í fyrirsögn á heilsíðu auglýsingu frá VÍS í Morgunblaðinu (11.11.2010) Þetta hljómar ekki vel í eyrum Molaskrifara. Betra hefði verið: Til hamingju Borgarleikhús.
Á tímum niðurskurðar gæti Ríkissjónvarpið sparað verulegar fjárhæðir með því að fella niður tíuféttir. Þær bæta yfirleitt litlu sem engu við það sem sagt var í fréttum klukkan sjö. Kannski er einni nýrri afgangsfrétt úr sjöfréttatíma skotið fremst. Svo mætti endursýna sjöfréttir í lok dagskrár,ef vill. Svo er líka hægt að reka fleiri reynda fréttamenn.
Stundum rambar Ríkissjónvarpið á fréttir af fólki,sem gerir góða hluti. Þannig var fréttin (10.11.2010) um frænda minn í fimmta lið, Guðna bónda á Þverlæk, sem safnar drykkjarumbúðum við þjóðvegi Suðurlands og gefur afraksturinn til menningarmála. Afi Molaskrifara, Jón Guðmundsson (d.1932) bjó um skeið á Þverlæk í Holtum.
Hann bregst ekki samhljómurinn milli formanns Framsóknarflokksins og talsmanns svokallaðra Hagsmunasamtaka heimilanna, enda var ljóst í upphafi að samtökin höfðu flokksleg tengsl. Ekki er vitað til að neinn fréttamaður hafi sinnt þeirri faglegu skyldu að kanna þessi samtök. Hve margir eru félagar ? Hvenær var kosið í stjórn og svo framvegis. Miðlarnir gleypa allt hrátt,sem frá samtökunum kemur.
Það var ánægjuleg tilbreyting að sjá heimildarmynd um tónskáldið Felix Mendelsohn í Ríkissjónvarpinu (10.11.2010). Það eru ár og dagar síðan þar hefur verið flutt efni sem tengist sígildri tónlist. Molaskrifari leyfir sér að benda Ríkissjónvarpinu á frábæran hálftíma þátt úr SVT 2 á mánudagskvöld með dönsku kammersveitinni og Hovedscenen úr NRK 2 á sunnudagskvöld með kínverska píanósnillingnum Lang Lang. Ríkissjónvarpið hlýtur að geta nálgast þetta efni í Nordvision samstarfinu. Þetta er svona vinsamleg ábending.
Skildu eftir svar