«

»

Molar um málfar og miðla 458

Hvað gerðist fyrir fjölskylduna mína? Þetta var letrað á skjá  Ríkissjónvarpsins (11.11.2010) í kynningu á dagskrá. Annað gullkorn,sem kom á  skjáinn í dagskrárkynningu (12.11.2010) : Hvernig á fólki að vera óhult?  Þarna er ruglað saman   Hvernig á fólki að vera óhætt og  hvernig á  fólk að vera óhult ? Líklega þarf að ráða fleiri málfarsráðunauta.

 Það er makalaus  dagskrárgerð, að  Ríkissjónvarpið skuli bjóða  upp á  mynd, sem er bönnuð börnum klukkan 21:20 á  föstudagskvöldi. Hvað eru  dagskrárstjórar að hugsa?

 Úr dv.is (12.11.2010): Magnús Hlynur hefur getið sér góðs orðs fyrir vandaðar og öðruvísi fréttir af málefnum líðandi stundar.    Málvenja er að tala um að geta sér gott orð, ekki geta sér góðs  orðs. Í  80. pistli  Jóns G. Friðjónssonar um Íslenskt mál í Morgunblaðinu  í júlí á árinu 2006 segir:  Eitt er að geta sér gott orð en annað að afla sér einhvers. Þessu má ekki rugla saman eins og í eftirfarandi dæmi: Miðað er við að kennarar … hafi getið sér góðs orðs [þ.e. gott orð] fyrir kennslu (Mbl. 30.4.06).

Brottrekstur Þórhalls Jósepssonar  af  fréttastofu Ríkisútvarpsins vekur spurningar. Fréttastjóra láðist að  spyrja Þórhall, þegar  Þórhallur sagðist vera að skrifa  bók. Hafði fréttastjóri gert athugasemdir við vinnubrögð  Þórhalls eftir að hann vissi að Þórhallur var að skrifa um fyrrverandi ráðherra? Það hefur ekki komið fram. Brottrekstur Þórhalls  rýrir trúverðugleik  fréttastofu og Ríkisútvarps,  sem af mörgum ástæðum á í vök að verjast.   Greining Þorbjarnar Broddasonar  (Rás eitt (12.11.2010), prófessors  og  sumarafleysingamanns á Alþýðublaðinu um miðjan  sjöunda áratuginn  var ágæt, –   svo langt sem hún náði. 

Og nú hefur Lára Hanna verið rekin sem  pistlahöfundur í morgunútvarpi.  Hver verður næstur?

 Í auglýsingu á forsíðu fylgiblaðs Morgunblaðsins , finnur.is  segir (11.11.2010): … þegar fyrirtæki eða stofnanir þurfa að ráða inn starfsmann tímabundið… Ráða inn ? Hér hefði   dugað að tala um að ráða starfsmann tímabundið.

  Á baksíðu Garðapóstsins (11.11.2010) stendur í heilsíðuauglýsingu: Við viljum bjóða handverksfólki og  sölufólki með nýjar vörur og matvæli velkomið á Garðatorg.  Það er  góðra gjalda  vert að  glæða  hið fram til þessa steindauða torg  nýju lífi. Það skal þakkað. Góður  prófarkalesari hefði  leiðrétt þessa auglýsingu. Þarna hefði átt að standa:  Við viljum bjóða handverksfólk og sölufólk með nýjar vörur og matvæli velkomið  á Garðatorg.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>