«

»

Molar um málfar og miðla 459

 Útsvar Ríkissjónvarpsins stendur jafnan fyrir sínu. Það er sá þáttur,sem Molaskrifari síst vill missa af.  Spurningaþættir virkja áhorfendur til þátttöku, til að hugsa. Sigmar og Þóra gera þetta svo vel , að aðrir mundu þar ekki betur  gera. Kastljósið er hinsvegar að koðna niður í heldur   ómerkilegan  auglýsingaþátt (Bók Jónínu Benediktsdóttur,tónleikar og plötuútgáfa  Sálarinnar hans Jóns míns, kvikmyndin um Jón Gnarr). Jónínu þátturinn var  einstaklega ógeðfelldur. Hún þurfti ekki að tíunda elskhuga sína ( sem svo  voru kallaðir)  fyrir alþjóð. Var verið að reyna að skapa sem mest  tilfinningalegt tjón hjá saklausu fólki ?   Þetta fannst Molaskrifara illa gert.

Úr mbl.is (12.11.2010): Persónuvernd telur, að svonefndur svikahnappur á vef Vátryggingafélags Íslands (VÍS) ekki samræmast reglum.  Hér  hefði átt að standa: Persónuvernd telur að  svonefndur svikahnappur á   vef Vátryggingafélags Íslands (VÍS)  samræmist ekki gildandi reglum. Eða: Persónuvernd telur svonefndan svikahnapp ekki í samræmi við gildandi reglur.

 Í  Ríkissjónvarpinu (12.11.2010) sagði fréttamaður á Akureyri: Neyð fólks hefur verið mikil í Reykjavík.  Vissulega  eiga margir í höfuðborginni í erfiðleikum með að láta  naumar tekjur eða  bætur  duga  fyrir  nauðþurftum. Ekki skal gert  lítið úr því. Molaskrifara  fannst fréttamaður hinsvegar  taka  ansi  stórt upp í sig, þegar  hann tók svona til orða.  

 Úr mbl.is (12.11.2010): Farþegaflugvél frá bandaríska flugfélaginu United Airlines, á leið frá Lundúnum til San Francisco, þurfti að lenda á Keflavíkurflugvelli nú undir kvöld með veikan sjúkling. Molaskrifari  hefur aldrei heyrt um sjúkling sem ekki var veikur og vart er það fréttnæmt,að sjúklingur skuli vera veikur.

  Í morgunþætti á Rás  tvö (13.11.2010) var   fólk beðið að nefna   kostulega  sjónvarpsþætti.  Fjórum eða  fimm sinnum heyrði Molaskrifari  umsjónarmann tala um:  eitthvað sem kemur upp í hugann á þér. Molaskrifari er kannski úr hófi sérvitur, en hann kann því ekki vel  að heyra talað um hugann á þér.  Betra hefði verið að segja: … eitthvað sem þér kemur í hug,  eitthvað sem þér dettur í hug,  eitthvað sem kemur í hugann, —  ekki hugann á þér.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>