Útsvar Ríkissjónvarpsins stendur jafnan fyrir sínu. Það er sá þáttur,sem Molaskrifari síst vill missa af. Spurningaþættir virkja áhorfendur til þátttöku, til að hugsa. Sigmar og Þóra gera þetta svo vel , að aðrir mundu þar ekki betur gera. Kastljósið er hinsvegar að koðna niður í heldur ómerkilegan auglýsingaþátt (Bók Jónínu Benediktsdóttur,tónleikar og plötuútgáfa Sálarinnar hans Jóns míns, kvikmyndin um Jón Gnarr). Jónínu þátturinn var einstaklega ógeðfelldur. Hún þurfti ekki að tíunda elskhuga sína ( sem svo voru kallaðir) fyrir alþjóð. Var verið að reyna að skapa sem mest tilfinningalegt tjón hjá saklausu fólki ? Þetta fannst Molaskrifara illa gert.
Úr mbl.is (12.11.2010): Persónuvernd telur, að svonefndur svikahnappur á vef Vátryggingafélags Íslands (VÍS) ekki samræmast reglum. Hér hefði átt að standa: Persónuvernd telur að svonefndur svikahnappur á vef Vátryggingafélags Íslands (VÍS) samræmist ekki gildandi reglum. Eða: Persónuvernd telur svonefndan svikahnapp ekki í samræmi við gildandi reglur.
Í Ríkissjónvarpinu (12.11.2010) sagði fréttamaður á Akureyri: Neyð fólks hefur verið mikil í Reykjavík. Vissulega eiga margir í höfuðborginni í erfiðleikum með að láta naumar tekjur eða bætur duga fyrir nauðþurftum. Ekki skal gert lítið úr því. Molaskrifara fannst fréttamaður hinsvegar taka ansi stórt upp í sig, þegar hann tók svona til orða.
Úr mbl.is (12.11.2010): Farþegaflugvél frá bandaríska flugfélaginu United Airlines, á leið frá Lundúnum til San Francisco, þurfti að lenda á Keflavíkurflugvelli nú undir kvöld með veikan sjúkling. Molaskrifari hefur aldrei heyrt um sjúkling sem ekki var veikur og vart er það fréttnæmt,að sjúklingur skuli vera veikur.
Í morgunþætti á Rás tvö (13.11.2010) var fólk beðið að nefna kostulega sjónvarpsþætti. Fjórum eða fimm sinnum heyrði Molaskrifari umsjónarmann tala um: eitthvað sem kemur upp í hugann á þér. Molaskrifari er kannski úr hófi sérvitur, en hann kann því ekki vel að heyra talað um hugann á þér. Betra hefði verið að segja: … eitthvað sem þér kemur í hug, eitthvað sem þér dettur í hug, eitthvað sem kemur í hugann, — ekki hugann á þér.
Skildu eftir svar