«

»

Molar um málfar og miðla 480

Fréttamönnum Ríkisútvarps fannst það fréttnæmt, að sendiráð Bandaríkjanna á Íslandi skyldi fylgjast með mönnum og málefnum og ekki síst stjórnmálahorfum og þróun á Íslandi. Það er hlutverk sendiráða að vera augu og eyru lands síns í gistiríkinu. „Afla upplýsinga“ sagði Jón Baldvin fyrrverandi utanríkisráðherra og sendiherra í Bandaríkjunum í Ríkisútvarpinu (06.12.2012)

 Sendiherrar Íslands   sendu til skamms tíma, og gera líklega enn, skýrslur ársfjórðungslega   til   utanríkisráðuneytisins í Reykjavík um  stjórnmál og  efnahagsmál í gistiríkinu. Ekki fer  hjá því að í slíkum skýrslum sé  vikið að samtölum við   nafngreinda   einstaklinga   stjórnmálamenn og frammámenn í atvinnulífi og lagt mat á menn og málefni. Umfjöllun  Ríkisútvarpsins um skýrslur bandaríska  sendiráðsins í reykjavíki  hefur  á stundum   verið einfeldningsleg , barnaleg og ekki borið vott um djúpstæða þekkingu. Svo var Jón Baldvin var sagður  sendiherra Bandaríkjanna (!) í morgunútvarpi  Rásar tvö (06.12.2010). Engum datt í hug að leiðrétta. Sama kurteisin við hlustendur.

  Sagt var í morgunútvarpi Rásar tvö (06.12.2010), að Kínverjar hefðu  stundað iðnaðarnjósnir á Íslandi. Hið rétta er að  starfsmenn bandaríska  sendiráðsins á Íslandi  hafa haldið þessu fram. Ekkert slíkt  liggur  fyrir  eða  hefur verið  sannað. Hér er ekki verið að bera blak af Kínverjum, heldur  einungis  benda á að enginn er sekur fyrr en sekt  er sönnuð. Í þessu máli hefur  sekt ekki verið sönnuð. Fjölmiðlamenn eru ekki dómarar í sakamálum.

Það fer hraðvaxandi um þessar mundir, að ung börn séu látin lesa auglýsingatexta. Ekki er gulltryggt að börnin  skilji alltaf þann texta ,sem  þeim er  gert að fara með.  Hvað segir Umboðsmaður barna?  Hvað segir  Barnaverndarstofa?

Í auglýsingaflóðinu þessa dagana eru fjölmargar nýjar auglýsingar í  sjónvarpi. Þær eru auðvitað  misjafnar   að gæðum. Malt og  appelsín auglýsingar Ölgerðarinnar eru  fínar.Appelsín  auglýsing  Vífilfells  er slök. Nú  ætti Ölgerðin að  birta stutta auglýsingu: Mynd af appelsínflösku og segja, – Varist eftirlíkingar !

  Ein versta  sjónvarpsauglýsingin, sem Molaskrifari hefur lengi séð, er um bók, sem  Molaskrifara sýndist heita Vax-in. En það getur þó varla  verið  bókartitill. Molaskrifara hlýtur að hafa missýnst.  Þar er  sagt:  Vilt þú  vita hvað klæðir þínu vaxtarlagi ?  Ömurlegt.  Það er eins og allar síur, allt  eftirlit,  öll gagnrýni  sé horfin að því er varðar  auglýsingar í Ríkisútvarpinu. Þar má allt.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>