«

»

Molar um málfar og miðla 517

Hinum berfættu í Afríku vantar ekki háhælaða skó. (blog.is 29.01.2011). Þágufallssýkin er þrálát.

 Fagmennska  björgunarsveitarmanna, sem  fundu Þjóðverjann á  Eyjafjallajökli , vekur aðdáun. Þar var svo sannarlega vel að verki staðið. Vaskir menn og vel útbúnir. Mikil þjálfun og  góður  búnaður voru forsenda þessa góða árangurs. Þetta minnir okkur á að standa þétt við bakið á  björgunarsveitunum, þegar þær  afla  fjár til starfsemi sinnar, til dæmis  með flugeldasölu um áramót. Ekki kom fram í fréttum að neinir flugeldasalar frá íþróttafélögunum hefðu tekið þátt í leitinni. 

  Í sexfréttum Ríkisútvarpsins (28.01.2011) var tvívegis talað um Tónlistarskóla Reykjavíkur. Ekki heyrði Molaskrifari að þetta væri leiðrétt. Tónlistarskóli Reykjavíkur er ekki til. Skólinn, sem um ræðir heitir Tónlistarskólinn í Reykjavík. Hann er elsti  tónlistarskóli landsins, var stofnaður fyrir áttatíu árum. Hann hefur um árabil verið aðal tónlistarskóli landsins. Nú ætlar borgarstjórnarmeirihlutinn í Reykjavík að ganga af þessum skóla dauðum.  Líklega hafa þeir, sem vissu betur, ekki haft nennu  til að leiðrétta þessa missögn fréttastofu ríkisins.  Sumum kann að finnast þetta smáatriði. Það er það ekki. Í fréttum  skipta smáatriðin máli.

  Þessi villa rifjaði  upp fyrir  Molaskrifara að haustið 1955  spurði Þórhallur Vilmundarson, sem  þá  kenndi sögu í M.R., busabekk hvað skólinn héti. Einhver sagði Menntaskóli Reykjavíkur, en ekki Menntaskólinn í Reykjavík,sem er hið rétta nafn skólans. Þórhallur   brást þannig við,  að Molaskrifari gerir ráð  fyrir, að sá sem í hlut átti muni til æviloka  hið rétta nafn þessarar öldnu og virðulegu menntastofnunar. Það verður hinsvegar að gera þá kröfu til fréttamanna Ríkisútvarpsins að þeir kunni skil á nöfnum helstu skóla landsins.  Og , — að þeir leiðrétti, þegar rangt er farið með. Stundum  finnst Molaskrifara, að Bogi Ágústsson sé næstum eini fréttamaðurinn , sem   leiðréttir rangfærslur, enda reyndur og fróður.

 Prýðileg umfjöllun var um  fyrirhugaðan niðurskurð á  framlögum Reykjavíkurborgar til  tónlistarkennslu í morgunútvarpi Rásar eitt (28.01.2011). Misvitur borgarstjórnarmeirihluti  klikkaða flokksins og  Samfylkingarinnar ætlar  að  kippa stoðunum undan tónlistarkennslu  í  Reykjavík.  Réttilega hefur verið  bent á hið hlálega misræmi sem felst í því að  byggja milljarða tónlistarhús og skera   tónlistarmenntun samtímis  niður  við trog.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>