Þættir Jónasar Sen , Átta raddir, eru skrautfjöður í annars heldur fátæklegum hatti Ríkissjónvarpsins. Þar á bæ virðast menn aðeins að vakna til vitundar um að til er annars konar tónlist en dægurtónlist því fyrr um daginn (30.01.2011) var sýndur erlendur þáttur með efni úr óperum frá 2010. Gott mál.
Handboltalega séð … varnarlega sterkir. (Handboltaþáttur Stöðvar tvö 30.01.2011) Þetta er víst alvanalegt orðalag hjá íþróttafréttamönnum, en ekki er það fallegt.
…og sæta árásir óeinkennisklæddra lögreglumanna. (Stöð tvö 30.01.2011) . Átti auðvitað að vera: .. sæta árásum óeinkennisklæddra lögreglumanna.
Á fund i Samfylkingarinnar (Ríkisjónvarpið, fréttir 29.01.2011) sagði forsætisráðherra: …..hvort jafnaðarmenn á Íslandi auðnist að halda undirtökunum… hefði átt að vera: .. hvort jafnaðarmönnum á Íslandi auðnist..
Sjaldan hefur verið lögð önnur eins ofuráhersla á að auglýsa útvarpsþátt í Ríkisútvarpinu eins og þátt sem senda á út úr menningarhöll þeirra Akureyringa, Hofi. En þegar annar umsjónarmanna segir í auglýsingu : Við erum að búa til útvarp hér í salnum , þá lofar það ekki góðu um framhaldið. Hversvegna ættum við að hlusta á þátt þar sem verið er að búa til útvarp ?
Óneitanlega er það spaugilegt dæmi um dagskrárgerðarsnilldina í Efstaleiti, að í Ríkisútvarpinu skuli vera vikulegur kvikmyndaþáttur (prýðilegur reyndar) en ekkert slíkt í myndmiðlinum Ríkissjónvarpi. Margir hafa bent á þetta að undanförnu. Ríkissjónvarpið leggur sig hinsvegar í líma við að draga fram mesta ruslið neðst úr ruslahaugi amerískrar offramleiðslu á lélegum bíómyndum til þess að sýna okkur, einkanlega á föstudags og laugardagskvöldum.
Dagskrá Ríkissjónvarpsins sl. laugardagskvöld (29.01.2011) var að uppistöðu poppþáttur (þar sem umsjónarmaður sagði okkur, að Egill Helgason væri þekktur fyrir að reka garnirnar úr fólki!) frá klukkan 2015 til 2120 og svo amerísk „ævintýramynd“ eins og sagt var í dagskrárkynningu frá klukkan 2120 til klukkan 2330. Þegar sýning ævintýramyndarinnar hófst var dagskráin reyndar orðin 15 mínútum á eftir áætlun. Enginn baðst afsökunar á því. Myndinni lýsir Ríkissjónvarpið svo: Ungur maður hættir sér inn í töfraland í útjaðri ensks sveitaþorps til að sækja fallna stjörnu. Góðir hálsar: Þetta er ekki boðlegt. Þið misbjóðið okkur viðskiptavinum Ríkissjónvarpsins.
Molaskrifari er áhugamaður orð. Hafi maður eyrun opin lærir maður ný orð. Um helgina var Molaskrifari að horfa á fréttir BBC One frá Kairó og heyrði þá Jeffrey Bowen, miðausturlandaritstjóra BBC nota lýsingarorðið intimidatory um aðgerðir hersins. Ekki heyrt þetta áður, svo ég muni. Intimidate (skelfa, hræða til undirgefni) og intimidating voru vel þekkt . Bætist í safnið.
Skildu eftir svar