Enn eitt dæmið um villandi fréttaflutning Morgunblaðsins var á mbl.is (05.02.2011). Þar sagði í myndatexta: Vilja þjóðaratkvæði. Yfir var mynd af þeim Bjarna Benediktssyni og Kristjáni Þór Júlíussyni þar sem þeir héldust í hendur og fögnuðu sigri. Í fréttinni kom fram, að Kristján Þór var fylgjandi þjóðaratkvæðagreiðslu en Bjarni Benediktsson vildi ekki útiloka þjóðaratkvæðagreiðslu. Hálfsannleikur. Morgunblaðið svífst nú einskis, ef það er talið málstaðnum til framdráttar. Sama lögmál gilti í hinu gamla málgagni kommúnista, Þjóðviljanum. Ómerkileg vinnubrögð.
Hinar heiftarlegu og forsæmislausu árásir Morgunblaðsins á formann Sjálfstæðisflkokksins fóru að mestu framhjá Ríkissjónvarpinu í gærkveldi (04.02.2011). Í Kastljósi var hinsvegar ítarleg umfjöllun um landnámshænur og ágæti þeirra.
Keyrði ölvuð á Klapparstíg, sagði í fyrirsögn á mbl.is (04.02.2011). Það hefur að líkindum verið harður árekstur ! Skyldi Klapparstígur hafa beyglast?
Fréttavefurinn visir.is (04.02.2011): Lögreglan sagði í samtali við Vísi fyrr í kvöld að engin stórkostleg óhöpp hefðu orðið þrátt fyrir ófærðina. Stórkostleg óhöpp? Líklega var átt við alvarleg óhöpp.
Hvað lesum við næst? Stórkostlegt slys ?
Heimsmeistaramót var framhaldið … sagði íþróttafréttamaður Ríkissjónvarpsins (04.02.2011). Það er eins og það hvarfli ekki að ráðamönnum í Efstaleiti að reyna að bæta málfar í íþróttafréttum Ríkisútvarpsins.
Barnabarn konunnar, sem lést fyrir tíu árum, en fékk áfram greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins, skrifar grein í Fréttablaðið (04.02.2011). Í greininni er fréttaflutningur Ríkisútvarpsins af málinu gagnrýndur. Undir þá gagnrýni tekur Molaskrifari. Fréttastofa ríkisins féll á enn einu prófinu. Birting nafns konu, sem lést fyrir tíu árum var ástæðulaus. Enn ástæðulausara var að tengja konuna við skáldsöguna Djöflaeyjuna. Þetta eru ámælisverð og afar einkennileg vinnubrögð. Hvernig í ósköpunum kom það fréttinni við að konan væri fyrirmynd persónu í skáldsögu? Enn eitt dæmið um dómgreindarskortinn og stjórnleysið í Efstaleiti.
Skildu eftir svar