«

»

Ungir píanósnillingar í Texas

Virtasta tónlistarkeppni  ungra píanóleikara í veröldinni er áreiðanlega  Van Cliburn keppnin, sem fram fer  fjórða hvert ár  í Fort Worth í Texas. Keppnin er kennd  við bandaríska  píanóleikarann Van Cliburn (74) sem bar sigur úr býtum í Tsjækovskí- einleikarakeppninni í Moskvu 1958.  Þar  lék hann  píanókonsert Tsjækovskís nr. eitt  og Rakmaninoff konsert. Hann varð þjóðhetja í Bandaríkjunum fyrir vikið. Flutningur hans á  Tsjækovskí konsertinum  var  fyrsta  platan  með sígildri tónlist ,sem seldist í meira en m illjón eintökum þar í landi.

   Norska  sjónvarpið NRK 2  (Hovedscenen kl. 20 10 á sunnudagskvöldum)  sýndi fyrir viku  einhverja stórkostlegustu tónlistarmynd,sem  sá er þetta ritar hefur  séð.  Myndin var frumsýnd í bandarísku PBS  sjónvarpsstöðvunum  haustið 2010 en hún  er  um  þrettándu Van Cliburn keppnina  árið 2009. Myndina  gerði   framleiðandinn og stjórnandinn Peter Rosen, sem  gert hefur meira en hundrað heimildamyndir og unnið  til margra verðlauna.

 Þátttakendur  í síðustu Van Cliburn keppni  í maí 2009  voru upphaflega 29  frá 14 löndum. Það þarf sannarlega að hafa mikið til brunns að bera til að komast í þann hóp. Keppnin stendur í þrjár  vikur. Þátttakendur flytja  einleiksverk, kammerverk (oftast í kvartett eða kvintett) og síðan konsert með fullskipaðri sinfóníuhljómsveit. Vegleg verðlaun eru veitt og   þeim sem lengst ná,  gefast  fjölmörg  tækifæri til að koma fram víðsvegar í veröldinni. Nefna má að Olga Kern, sem deildi gullverðlaunum í Van Cliburn keppninni  2001 með Stanislav Laudenitch lék  píanókonsert Rakmaninoffs  nr.2  með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Háskólabíói  14. maí 2009.

  Kvikmynd Peters Rosens   fjallar  einkum um þau sex sem  komust í úrslit í Fort Wort. Athygli vekur og segir sína sögu, að  fjögur þessa sex  eru  frá Asíulöndum. Tvö  frá Kína, einn frá Japan, ein frá  Suður Kóreu, ein frá Ítalíu og  einn frá Búlgaríu. Kínverski píanósnillingurinn Lang Lang  lét nýlega svo ummælt að í Kína væru 20 milljónir ungra píanísta, sem  dreymdi um að verða konsertpíanistar. Fyrir þann ,sem dvalist hefur  fjögur ár í Kína og og sótt marga  píanótónleika er auðvelt að trúa því.

  Það er ekki oft sem sá er þetta skrifar fær  kökk  í hálsinn við að horfa á  gott efni í sjónvarpi. Það gerðist þó, er ég horfði á mynd Peters Rosen. Hún er geymd á hörðum diski og verður skoðuð aftur og  enn aftur ef að líkum lætur.

 Í keppninni, sem myndin fjallar um, deildu  gullverðlaunum Haochen Zhang (nítján ára) frá Kína og  Nobuyuki Tsuji (tvítugur) frá Japan, en hann er  blindur. Silfurverðlaun hlaut Yeol Eum Son  (tuttugu og þriggja ára)  frá Suður Kóreu. Þau önnur  sem  komust í  lokakeppnina voru:  Evgeni  Bozhanov (25) frá  Búlgaríu, Mariangela Vacatello (27) frá Ítalíu og  Di Wu (24 frá Kína).  Ýmsir  töldu  að   hin  síðastnefnda  hefði  hiklaust átt að vera  meðal  hinna þriggja sem  báru sigur úr býtum.

 Að  fylgjast með   blinda  píanóleikaranum Nobuyuki, eða Nobu, eins og hann var kallaður í myndinni, var  ótrúlegt  ævintýri. Til dæmis hvernig hann og  hljómsveitarstjórinn   leystu þann vanda  að í einleiksverkum eru ævinlega augnablik, þar sem  einleikari og  stjórnandi  þurfa að hafa augnsamband. Þessi  blindi píanóleikari spilar sig beint inn  í hjarta manns, hvort heldur hann lék einn, í kammerhópi eða  með  hljómsveit. Hann var  ótrúlegur.

  NRK2 endursýndi myndina laugardaginn 5.  febrúar undir  heitinu En overraskelse i Texas.

  Vonandi eigum við eftir að hlusta  á  einhverja þessara ungu snillinga í Hörpu, þegar þar að kemur. Óskandi er  að þess verði   ekki langt að bíða.

 En líklega er það borin von að við fáum að sjá þessa  mynd í  sjónvarpi íslenska  ríkisins.  Allavega ekki  meðan núverandi stjórnendur reka stofnunina  eins og  vídeóleigu og  íþróttarás.  Það er  mikil sorgarsaga. Við  förum nefnilega  svo mikils á mis.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>