«

»

Molar um málfar og miðla 524

Það er lofsvert hve vel fréttastofa Ríkisútvarpsins hefur gengið fram í því að upplýsa glæpsamlegt framferði ýmissa forráðamanna og stjórnenda sparisjóða. Hrós fyrir það. Framferði og sjálftaka þessara manna kostar skattgreiðendur milljarða. Á hverjum degi erum við upplýst betur og betur um framferði þessara hvítflibbaþjófa. Furðulegt að þeir skuli enn ganga lausir. Sparisjóðurinn Byr fékk frægustu poppstjörnu landsins til að hamra á einhverju sem þeir kölluðu „fjárhagslega heilsu“ í auglýsingatímum sjónvarpsstöðvanna dag eftir dag, viku eftir viku.. Líklega hefur andleg heilsa þeirra ekki verið í góðu lagi um þær mundir.

  Fréttamönnum  BYlgjunnar  voru   mjög mislagðar hendur hvað málfar snerti í hádegisfréttum  sunnudagsins (06.02.2011).  Þar var  sagt  frá opnun  skíðasvæðisins í  Bláfjöllum og   okkur  sagt að  mikill snjór  væri  í fjallinu.  Bláfjöll eru ekki eitt  fjall. Seinna  var talað um  frábæra  færð í  Bláfjöllum. Átt var  við frábært skíðafæri. Eitt er færð, annað færi. Þetta var þó ekki það  versta. Annar fréttamaður sagði,  sú  töf sem orðið  hefur….  alltof mikla. Þá  töf, – átti það auðvitað að vera. Líka fengum  við að heyra um loga eldsins…   varð mörgum tíðrætt að…Sjálfsagt var ýmislegt fleira,  sem  gera mætti athugasemdir  við.

  Það er víst  orðið fast í málinu, þökk sé íþróttafréttamönnum, að tala um púðursnjó.  Það var gert í þessum fréttatíma Bylgjunnar . Þetta orð er tekið hrátt úr  ensku, powder snow.  Það sem þeir kalla  púðursnjó  heitir mjöll  eða  lausamjöll á  góðri og gildri íslensku og er ólíkt fallegra.

  Úr  mbl.is (06.02.2011): … segir stemninguna á skíðasvæðinu í Bláfjöllum ótrúlega en þar opnaði í dag í fyrsta sinn á þessu ári.   Þar opnaði í  dag !  Það var og.

 Þórðargleði er það kallað, þegar menn gleðjast yfir  óförum annarra. Molaskrifari  skildi ekki hvernig  almannatengill  (svokallaður) notaði þetta orð í fréttum Stöðvar tvö (06.02.2011)

    Fréttastofa Bylgjunnar sagði (06.02.2011) að vaxandi þrýstingur  væri á  formann Sjálfstæðisflokksins á að beita sér  fyrir því að Icesave  fari í  þjóðaratkvæðagreiðslu.  Hvernig  mælir  fréttastofa Bylgjunnar hvernig þrýstingur vex eða minnkar í því máli?  Er þrýstingurinn vaxandi vegna þess að andstæðingar formanns  Sjálfstæðisflokksins hringja í fréttastofu Bylgjunnar og segja að svo sé? Það skyldi þó aldrei vera.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>