«

»

Molar um málfar og miðla 526

Sumir hafa tamið sér að setja hikorð inn í  næstum hverja setningu. Algeng hikorð eru, hérna, sko, þú veist,svo aðeins þrjú dæmi séu nefnd. Heldur er þetta  hvimleitt  fyrir þann sem hlustar. Í  morgunútvarpi  (08.02.2011) heyrði  Molaskrifari  til konu, sem  sagði  þú veist   í hverri setningu og stundum oftar en einu sinni.   Sennilega veit hún ekkert af þessu.  Ekki er úr vegi ,að vinir bendi  viðkomandi á að þetta er mállýti, sem   tiltölulega einfalt ætti að vera að að losna við.  

   Á fréttavef Ríkisútvarpsins segir  frá kjaradeilum sjómanna í Færeyjum (08.02.2011). Þar segir: Þeir einu sem eiga því eftir að semja eru áhafnir partogara, en í Færeyjum er það orð notað yfir tvo togara sem fara alltaf saman út til veiða.   Það sem  Ríkisútvarpið kallar partogara, –  tvo togara sem fara alltaf saman út  til veiða eru  tvö skip sem  nota eitt troll,eða vörpu,  toga  saman.  Á íslensku hafa  slík skip verið kölluð tvílembingar.  

    Í íþróttafréttum  Ríkisútvarpsins  (08.02.2011) var sagt um lið, sem tapað hafði mörgum leikjum í röð , að allt hafi farið í hund og kött hjá liðinu, eftir að stórstjarna hvarf úr röðum þess.   Molaskrifari  hefur  alltaf  skilið þetta  orðtak  svo  að það  þýði að allt hafi farið upp í loft,  allt  lent  í ósamkomulagi.  Þarna  virtist orðtakið hinsvegar notað í þeirri merkingu að allt hafi  verið  liðinu  andsnúið eða mótdrægt. En kannski voru leikmenn bara eins og  hundar og kettir og gátu ekki komið sér  saman um eitt eða neitt eftir  brotthvarf stórstjörnunnar.

 Viðtengingarháttur á miklu undanhaldi,sagði í fyrirsögn á mbl.is (08.02.2011) http://www.mbl.is/frettir/innlent/2011/02/08/vidtengingarhattur_a_miklu_undanhaldi/  Þetta kemur  ekki á óvart.  Þarna hefði fremur á átt að standa:   Viðtengingarháttur á hröðu undanhaldi, fremur en miklu undanhaldi. Máltilfinning er víða á  undanhaldi. Eignarfall et. á  í vök að verjast. Ég er að  fara  til Áslaug, heyrir maður ungt  fólk segja.  Þá eiga áhrifssagnir, sagnir  sem  stýra falli, taka með sér andlag,  mjög í vök  að verjast.  Í fréttum gætir vaxandi tilhneigingar til að hafa   allsstaðar nefnifall.  Okkur íhaldsmönnum um málfar finnst þetta ekki  af hinu góða. Síður en svo.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>