Orðskrípið áhafnarmeðlimur lifir góðu lífi og dafnar í Efstaleitinu. Það kom við sögu í sexfréttum Ríkisútvarpsins (10.02.2011). Þar hafa menn orðið skipverji ekki á takteinum.
Þegar fjallað er um málefni Sparisjóðsins Byrs er það nánast undantekning að nafn sjóðsins sé beygt. Eignarfall et. af byr getur verið bæði byrjar og byrs. Nafnið á auðvitað að beygja. Ekki væri gott að segja starfsmenn Landsbanki Íslands. Það er hliðstætt við að segja starfsmenn Sparisjóðsins Byr.
Stundum má sjá auglýsingar á einkennilegu hrognamáli: NIVEA Q10 ANTI-WRINKLE AUGNROLLER. Ekki til eftirbreytni.(Fréttablaðið 10.02.2011).
Úr íþróttafréttum Ríkisútvarpsins (10.02.2011)… en leikmaðurinn hefur verið á reynslu hjá félaginu. Líklega merkir þetta að leikmaðurinn hafi leikið með félaginu til reynslu að undanförnu.
…verðmæti þess afla nemur hundruð milljónum króna, sagði fréttamaður Ríkissjónvarps um yfirvofandi verkfall bræðslufólks(10.02.2011). Betra hefði verið að segja að verðmæti aflans næmi hundruðum milljóna króna.
Athyglisvert var að heyra lögmann í sjónvarpsfréttum (10.02.2011) kalla dóm í einhverju fáránlegasta meiðyrðamáli,sem sögur fara af, wake-up call fyrir fjölmiðla. Gera verður þá kröfu til lögmanna að þeir geti tjáð sig á móðurmálinu í fjölmiðlum.
Málblóm eru ekki nýtt fyrirbæri í íslenskri fjölmiðlaflóru. Molaskrifari var að glugga í jólablað Fálkans frá árinu 1953 er hann rakst á eftirfarandi setningu: Hinn nýlátni biskup Íslands var á ferð í Osló nokkru síðar….. Ekki orð í viðbót um það ferðalag herra biskupsins yfir Íslandi á því herrans ári 1953
Skildu eftir svar