«

»

Molar um málfar og miðla 534

Þegar fréttamaður  Ríkissjónvarps  segir (16.02.2011)  að klukkan sé á seinni ganginum í níu  á hann líklega við að  klukkan sé milli hálf níu og  níu.  Molaskrifari hefur aldrei  heyrt svona  tekið til orða. Kannast Molalesendur við þetta  orðalag?

  Í fréttum Stöðvar tvö  (17.02.2011) var fjallað um mikilvægi D-vítamíns, m.a.  til að koma í veg  fyrir að börn  fái beinkröm. Fréttamaður sagði meðal annars:  Fæðan gegnir mjög ríku hlutverki… betra hefði verið að tala um mikilvægt hlutverk fæðunnar.  Það hljómaði  dálítið ankannalega að tala um að taka inn fiskafurðina lýsi. Betra  hefði verið að tala um  að taka lýsi. Loks  talaði  fréttamaðurinn um að fólk fái  D-vítamínskort  yfir  vetrarmánuðina. Það er  ekki gott að tala um að fá skort. Betra hefði verið að  tala um að  ýmsa  skorti  D-vítamín á veturna.

 Molaskrifari varð hissa er hann las   það sem Víkverji Morgunblaðsins skrifaði (18.02.2011). Víkverji  sagði, að   12.2 milljón króna  framlag  ríkisins til Knattspyrnusambands  Íslands væri  „smánarlegt“. Molaskrifari man ekki betur en  Knattspyrnusambandið, sem  orðið er eitt af stórfyrirtækjum landsins og á lítið  skylt við áhugamennsku, hafi skilað  tæplega 70 milljón króna hagnaði í fyrra. Þar fyrir utan  hefur   sambandið  lögverndaðar einokunartekjur af Lottói og   getraunum. Það er  líka ríkisstyrkur. En oft er eins og talsmenn íþróttahreyfingarinnar meti það einskis.  Eins og nú háttar þarf Knattspyrnisamband Íslands  því enga  styrki frá ríkinu.

 Góðvinur Molanna  sendi eftirfarandi athugasemdir.   Í fréttatíma  Ríkissjónvarpsins (15.02.2011)  sagði fréttamaður: … að staðið verði  vörð um menntun ….  Nú þarf að  standa vörð um  móðurmálsmenntun   fréttamanna.  Einnig benti  hann á að í textavarpi  Ríkisútvarpsins hefði staðið: Mörður biður afsökunar , þegar betra  hefði verið að segja: Mörður biðst afsökunar.  Þessi  málvinur  Molanna nefndi  og  til sögunnasr   sóðalegt orðbragð froðufellandi  sjónvarpsstjórans á ÍNN á Hrafnaþingi. Slíkt orðbragð er ekki niðurlægjandi fyrir þann sem það er notað um, heldur   aðeins þann sem lætur sér það um munn fara. Sjónvarpsstjórinn gerir lítið úr sér með  svona orðbragði.  Molaskrifara er til  efs að svona  ljótur   munnsöfnuður hafi fyrr heyrst í  íslenskum  fjölmiðli.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>