Í fréttum Stöðvar tvö, um strand Goðafoss var sagt: Sjópróf verða gerð. Sjópróf eru ekki gerð. Sjópróf fara fram. Ekki mjög flókið. Í einni frétt Ríkisútvarpsins af strandinu var sagt: Norska útvarpið náði síðdegis samband við… Ekki nógu gott. Norska útvarpið náði sambandi við….
Morðin verða enn fleira og hrikalegri, sagði í auglýsingu um nýja þáttaröð á Stöð tvö. Þetta er sannarlega tilhlökkunarefni fyrir þá, sem kjósa að kaupa það sem Stöð tvö hefur á boðstólum.
Fjölmiðlar hafa að undanförnu rætt það í síbylju hvort forseti Íslands muni synja lögunum um Icesave.Synja lögunum um hvað? Molaskrifari spyr . Hann kannast ekki við þessa notkun sagnarinnar að synja. Talað er um að synja einhverjum um eitthvað. Mér var synjað um vegabréfsáritun til Bandaríkjanna. Réttara væri að fjölmiðlar veltu því fyrir sér hvort forseti Íslands ætli að neita að undirrita lög Alþingis um Icesave.
Í fréttum Ríkissjónvarps (18.02.2011) fullyrti forseti Ísland að Alþingi hefði tekið sér lengri tíma til að fjalla um Icesave en nokkuð annað annað mál. Þess eru mörg dæmi að forseti lýðveldisins sé ekki mjög minnisgóður á fortíð sína og annarra. Molaskrifari er næsta viss um að Alþingi tók sér á sínum tíma lengri tíma til að fjalla um aðild okkar að EES en Icesave núna. Ætli Hjörleifur Guttormsson hafi ekki talað álíka lengi gegn EES og öll stjórnarandstaðan gegn Icesave í þessari lotu ?
Í Molum gærdagsins var vikið að væli Víkverja Morgunblaðsins um „smánarleg“ framlög ríkisins til knattspyrnu á Íslandi og minnt á Knattspyrnusambandið hefði skilað tugmilljóna hagnaði í fyrra. Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (18.02.2011) kom fram þessu til viðbótar að knattspyrnudeild eins íþróttafélags hefði grætt 72 milljónir í fyrra! Og svo vilja menn seilast enn dýpra í vasa skattborgaranna, þar sem ekki er mikið fé að finna.
Skildu eftir svar