Óljóst er hvenær Goðafoss verður fluttur af strandstað í Noregi, segir á fréttavef Ríkisútvarpsins (19.02.2011). Nákvæmlega sama orðalag var reyndar notað í hádegisfréttum. Það er ekki í samræmi við málvenju að tala um að flytja skip af strandstað. Skip eru ekki flutt af strandstað. Vonandi verður Goðafoss fljótlega dreginn á flot af skerinu.
Undarlegt er að tala um Halldór Laxness og Ólínu Andrésdóttur sem „textahöfunda“ eins og gert var í Útsvari (18.02.2011). Bæði voru þau skáld og ortu ljóð. Og ekki hækkaði risið á þessari þjóðarstofnun , þegar útvarpsstjórinn gerði lítið úr Bandalagi íslenskra listamanna í hádegisfréttum daginn eftir (19.02.2011). Bandalagið hafi gerst svo djarft að gagnrýna íþróttadekrið í Efstaleiti. Það er engu líkara en listamenn eigi ekki upp á pallborðið hjá stjórnendum Ríkisútvarpsins.
Af mbl.is (19.02.2011): Skíðasvæðið í Bláfjöllum verður lokað í dag vegna mikils vinds. Betra hefði verið að segja að lokað væri vegna hvassviðris. Kannski er þetta bara sérviska Molaskrifara.
Í sunnudagsblaði Moggans (20.02.2011) er talað um áætlunarskipið Titanic.Áætlunarskip ? Eðlilegast hefði verið að tala um farþegaskipið Titanic.
Þeir sem stjórna auglýsingadeild Ríkisútvarpsins eru ekki starfi sínu vaxnir. Auglýsingadeildin í Efstaleiti tekur við öllu sem að henni er rétt athugasemdalaust. Á föstudagskvöld i (18.02.2011) var sagt í auglýsingu, að tiltekin fyrirtæki felldu niður virðisaukaskatt af vörum um helgina. Þetta eru ósannindi. Fyrirtæki geta ekki fellt niður virðisaukaskatt. Fyrirtæki geta veitt afslátt, sem nemur virðisaukaskattsprósentunni. Þetta er því miður bara enn eitt dæmið um óvönduð vinnubrögð í Efstaleitinu.
Skildu eftir svar