Forseti lýðveldisins hannar nú nýjar skilgreiningar eftir hendinni til að þjóna hentisemi sinni og persónulegum metnaði. Þjóðin er löggjafinn, er alveg ný skilgreining. Hún finnst líklega hvergi á bókum, en hún hentar núna, þegar Ólafur Ragnar Grímsson er byrjaður að búa sig undir framboð til fimmta kjörtímabilsins á Bessastöðum. Hann er alltaf að reyna að gera það sem enginn hefur áður gert, jafnvel þótt með endemum sé.
Það er annars svolítið hlálegt að sú staða skuli nú vera uppi, að Ólafur Ragnar skuli að öllum líkindum ætla sér að sitja fimmta kjörtímabilið á Bessastöðum í skjóli ritstjóra Morgunblaðsins og fyrrverandi forsætisráðherra og ýmissa helstu forkólfa gamla Sjálfstæðisflokksins. Þetta er ekki síst hlálegt í ljósi þess að einu sinni sagði forsætisráðherra um Ólaf Ragnar Grímsson, að hann mundi aldrei, aldrei sitja sem forsætisráðherra í skjóli þess manns. En nú gæti farið svo að Ólafur Ragnar sæti eitt kjörtímabil í viðbót í skjóli ritstjóra Morgunblaðsins á Bessastöðum. Undarleg er veröldin og ólíklegustu menn sænga nú saman í pólitík. (Politics makes strange bedfellows, er sagt á ensku)
Á blaðamannafundinum á Bessastöðum, sagðist Ólafur Ragnar alls ekki vera að breyta stjórnskipan landsins. Auðvitað er hann að því. Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn. Forsetinn sniðgengur fulltrúalýðræðið og baðar sig nú í fjölmiðasólinni. Hann gæti þó brennt sig.
Skildu eftir svar