«

»

Molar um málfar og miðla 538

Ólafur Ragnar mun eiga fund með páfa á þriðjudag og fær hann einkaáheyrn en slík þykir afar sjaldgæft,(mbl.is 22.02.2011) Það er auðvitað eins og hvert annað bull ,að  það sé sjaldgæft að þjóðhöfðingjar fái einkaheyrn  hjá páfa. Blaðamenn láta forsetaskrifstofuna plata sig. Það þætti sæta  tíðindum, ef þjóðhöfðingi ,sem óskar eftir áheyrn fengi ekki áheyrn. Morgunblaðið er gengið í lið með  forsetaskrifstofunni  að reyna að gera Ólaf Ragnar  að merkilegri persónu en hann er.  Sjá  annars  til gamans skýringu orðatiltækisins að tala við páfann á bls. 656 í bókinni Mergur  málsins  eftir   dr. Jón G. Friðjónsson

Á  fréttavef Ríkisútvarpsins (21.02.2011)  var skrifað um hungursneið.     Hér átti að skrifa  hungursneyð, neyð   af nauð.

  Ærið oft virðist  fréttamönnum  verða fótaskortur, þegar fjallað  er um strand Goðafoss  utan  við Frederiksstad. Í fréttum Stöðvar  tvö (21.02.2011) var  verið að segja  frá því hvenær ætti að freista þess að  draga skipið á  flot. Þá var sagt: … en sjávarföll  verða einkar hentug þá.  Molaskrifara finnst ótækt að tala um að sjávarföll verði hentug. Betra  væri að segja til dæmis,   en þá stendur  vel á  sjó.  Eða, en þá  verður  hásjávað.

 Meira um  Goðafossfréttir og nú  af mbl.is (21.02.2011), en þar segir:  Gert er ráð fyrir því að hafsögumaður fari frá borði nokkrum sjómílum síðar en hann gerði.
Aðeins um sex skipalengdum frá þeim stað þar sem lóðsinn yfirgaf Goðafoss, sigldi skipið í strand, þá innan þeirra marka sem hafsögumaður á að vera viðstaddur.
  Við þessar  fáu línur er ýmislegt að   athuga. Í fyrsta  lagi  er óeðlilegt að segja, – nokkrum sjómílum síðar. Betra hefði verið ,  nokkrum sjómílum utar. Rangt er að tala um skipalengdir, ætti að  vera  skipslengdir. Svo er  ekkert til  sem  heitir hafsögumaður, rétta orðið er auðvitað hafnsögumaður. Öll er fréttin svolítið í aulastíl.

Meira af mbl.is (22.02.2011). Í frétt af  jarðskjálftunum á Nýja Sjálandi segir: Björgunarsveitir vinna nú í gegnum nóttina í Christchurch í Nýja-Sjálandi til að bjarga fólki … Hér skín enskan  hrá í  gegn, –   work through the night  Sá sem hefur þýtt þessa frétt úr ensku er ekki góður í íslensku.

  Málsmetandi  stjórnmálamenn eiga að sneiða hjá Útvarpi Sögu og þeim sora  sem þar  er oft að finna. Allra síst eiga þeir að ræða  við Arnþrúði Karlsdóttur, Pétur  Gunnlaugsson og Guðmund Franklín Jónsson.  Í endurteknum þætti (að morgni 22.02.2011)   fullyrti  símavinur  við Arnþrúði Karlsdóttur að Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins hefði samþykkt  Icesave vegna þess að það hefði verið skilyrði  fyrir því að hann fengi  20 milljarða lán hjá  Deutsche Bank.  Hefurðu  sannanir fyrir  því , spurði útvarpsstjórinn.  Svona smá,  svaraði símavinur  útvarpsstjórans og hún hélt samtalinu áfram  athugasemdalaust. Eftir stóð  alvarleg ásökun, rógur og  lygi. Ekkert var dregið í efa. Þetta eru  svo vond  vinnubrögð að engu tali tekur.

   Í sporum Bjarna Benediktssonar mundi  ég  aldrei koma  nálægt  þessari stöð. Það er fyrir neðan  virðingu hans. Langt fyrir neðan. Það er fyrir neðan  virðingu  þingmanna að koma þarna til að ræða stjórnmál, nema kannski þess eina  sem  þar virðist kominn í fast starf. Alvöru stjórnmálamenn  ættu ekki að virða þessa útvarpsstöð viðlits.

   Það er ótrúlegt, að sómakær  fyrirtæki, að maður skyldi ætla,  skuli  auglýsa í Útvarpi  Sögu  Molaskrifari er að koma sér upp lista yfir  fyrirtæki sem  auglýsa í  Útvarpi  Sögu svo hann geti  sneitt hjá þeim og beint viðskiptum sínum annað.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>