Í fréttum Stöðvar tvö var talað um, að tannlæknar væru krafnir um. Hér hefði átt að segja, að tannlæknar væru krafðir um. Eða þess væri krafist, að tannlæknar….
Beygingakerfið er á undanhaldi. Enn eitt dæmið um það var í mbl.is (23.02.2011): Ráðuneytið hefur náð samkomulagi við forsvarsmenn skólans um að nemendur sem hófu nám sl. haust verði gert kleift að ljúka námi sínu við skólann á vorönn 2012. Hér átti auðvitað að segja: … nemendum … verði gert kleift…
Dæmi um óþarfa þolmynd úr mbl.is (23.02.2011): Jón segir að fólkið sem komst inn í Túnis hafi verið rænt af mönnum í lögreglubúningum… Um þetta þarf svo sem ekki að hafa mörg orð.
Í Ríkissjónvarpinu var enn einu sinni sagt (22.02.2011): … frá því forseti synjaði lögunum. Molaskrifari er ekki sáttur við þetta orðalag. Hefði fundist betra að segja: .. frá því forseti hafnaði því að undirrita lögin. Kannski er Molaskrifari einn um þá skoðun að ekki sé rétt að nota sögnina að synja með þeim hætti, sem Ríkissjónvarpið gerði.
Dagskrá íþróttahúss þjóðarinnar í Efstaleiti höfðaði ekki til Molaskrifara á þriðjudagskvöldið (22.02.2011). Hann horfði því á Lárus Blöndal hæstaréttarlögmann, fulltrúa stjórnarandstöðunnar í Icesave saminganefndinni útskýra málið í samtali við Ingva Hrafn í ÍNN stöðinni. Lárusi tókst einstaklega vel að útskýra þetta flókna mál og þær áhættur sem felast í hvorum þeirra tveggja kosta sem blasa við. Annarsvegar að samþykkja þann samning sem fyrir liggur eða láta málið fara fyrir dómstóla. Eftir útlistun Lárusar er ekki hægt að velkjast í vafa um það hvor kosturinn sé betri. En auðvitað eru þeir til sem munu halda áfram að berja hausnum við steininn og kyrja: Við borgum ekki. Við borgum ekki , undir stjórn Morgunblaðsins og fyrrum forkólfa Sjálfstæðisflokksins.
Ragnar Hall, hæstaréttarlögmaður gerði Icesave málinu einnig mjög góð skil í Kastljósi Ríkissjónvarpsins (22.02.2011). Hann talaði mannamál, þannig að allir gátu skilið. Takk fyrir það. Sá sem talaði gegn Icesave reyndist vera viðskiptafélagi eins aðaleiganda gamla Landsbankans, sem ber ábyrgð á Icesave ruglinu. Það var undarlegt val. Ekki undarlegt þótt maðurinn verði glæpinn.
Það er til marks um vinnubrögð Morgunblaðsins í Icesave málinu að í dag (24.02.2011) birtir blaðið leiðréttingu frá forstjóra ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA. Hann ber af sér sakir. Leiðarahöfundur Morgunblaðsins gerði honum upp skoðanir. Laug upp á hann , heitir það á íslensku. Ný vinnubrögð á Mogga. Ekki hvarflar að blaðinu að biðja viðkomandi einstakling afsökunar. Morgunblaðinu er ekkert heilagt í blindri baráttu gegn Icesave. Allra síst sannleikurinn.
Skildu eftir svar