Þar féllu nokkur él, sagði veðurfræðingur í veðurfréttum Ríkissjónvarps. Molaskrifari man ekki til þess að hafa heyrt þetta orðalag, en það segir svo sem lítið. Og auðvitað er ekkert rangt við þetta orðalag. Þarna hefði einnig mátt tala um éljagang. Nokkuð algengt er líka, að sagt sé: Það kastaði éljum, gekk á með éljum.
Molaskrifari telur rétt að vekja sérstaka athygli á grein Karls Kristjánssonar starfsmannastjóra Alþingis í Fréttablaðinu í dag (28.02.2011) þar sem hann fjallar um einstæð vinnubrögð Ríkisútvarpsins og misnotkun á stofnuninni í þágu níumenninganna svokölluðu: http://www.visir.is/einhlida-og-villandi-umfjollum-ruv/article/2011702289975
Sagnfræðingarnir, sem fram komu í Silfri Egils (27.02.2011) afgreiddu Rómarrugl Ólafs Ragnars Grímssonar snyrtilega og kurteislega. Leitt er hinsvegar að forsetinn skuli vera búinn að eyðileggja orðatiltækið söguleg tímamót. Allt sem Ólafur Ragnar tekur sér fyrir hendur markar orðið söguleg tímamót. Því er þetta orðið merkingarlaust með öllu.
Glæpadómstóll Sameinuðu þjóðanna verður falið að rannsaka …las fréttaþulur Ríkisútvarps hikstalaust í hádegisfréttum (27.02.2011). Hér hefði tvímælalaust átt að segja: Glæpadómstól, eða glæpadómstóli Sameinuðu þjóðanna verður falið….
Í þættinum Landinn (27.02.2011) í Ríkissjónvarpinu voru sýndir tveir sólstólar, sem komið hafði verið fyrir á víðavangi. Fréttamaður tók svo til orða, að einhver hefði séð sér leik á borði og komið stólunum þarna fyrir. Molaskrifari áttar sig ekki hvaða erindi þetta orðatiltæki átti í þessu samhengi. Að sjá sér leik á borði er að nýta sér gott tækifæri til e-s eða grípa tækifærið til að koma einhverju fram í eiginhagsmunaskyni, svo vitnað sé í Merg málsins eftir dr. Jón G. Friðjónsson. Þessi notkun orðatiltækisins var út í hött.
Komi maður of seint, biðst maður afsökunar. Það er almenn kurteisi. Ríkissjónvarpið biðst ekki afsökunar þegar sýningu þáttar (Lífverðirnir 27.02.2011) seinkar um sjö til átta mínútur vegna þess að útsendingarstjórar kunna ekki nægilega vel á klukku. Það er ókurteisi.
Sjónvarpið sýndi þátt, sem hét: Hvert stefnir Ísland? Hvernig væri að gera þátt, sem héti: Hvert stefnir Ríkisútvarpið?
Skildu eftir svar