«

»

Molar um málfar og miðla 582

 

Margar stofnanir eru með símsvörun á ensku. Til dæmis er  hægt að  fá upplýsingar á ensku, ef  hringt  er í Ríkisútvarpið. Rödd  segir: Press … for English version. Þetta er  góðra gjalda vert , en enska orðið version  er hinsvegar  borið fram í símsvaranum  eins og það  sé  skrifað wersion. Þetta er algeng  framburðarvilla  hjá Íslendingum. Á ensku er reginmunur á  framburði  w og v. Þetta ættu þeir útvarpsmenn að laga.

Í sunnudagsþætti   Sirrýjar á  Rás tvö (10.04.2011) var prýðilegt spjall um  nýútkomna handbók um tunguna, um mál og  málnotkun. Greinilega þarf  Molaskrifari að heimsækja bókaverslun í vikunni og   eignast þessa  nýju bók  og kynna sér  efni hennar. Það er ekki á hverjum degi, sem  bók af þessu tagi  sér dagsins ljós.

Í sjöfréttum Ríkisútvarps (11.04.2011) var sagt frá  skútu,  sem hafði  lent í sjávarháska   utan við Húsavík. Sagt var:… tókst áhöfn hans (björgunarbáts)  að koma togi í skútuna…   Þarna hefði annaðhvort átt að  segja:  Tókst áhöfn hans að koma  taug í skútuna,  eða … tókst áhöfn hans að koma  tógi í  skútuna. Þetta var reyndar leiðrétt í seinni fréttum  morgunsins.

Elding laust niður í Hellisheiðarvirkjun snemma í morgun, segir á mbl.is (11.04.2011). Eldingu laust niður, ætti þetta að vera.   Raunar var þetta rétt í síðari hluta fréttarinnar.

Í morgunþætti Rásar eitt (11.04.2011) var vönduð og fróðleg umfjöllun um  frægt  málverk Rembrandts,  Gyðingabrúðina. Takk fyrir það.   

Heldur er  hvimleitt að  heyra  orðið  forsetakosningar ítrekað  borið  fram  forstakosningar, eins og gert var  í morgunfréttum Ríkisútvarps  (11.04.2011)

Molavin sendi eftirfandi athugasemd úr   austurvegi:  ,,DV skrifar svo í dag: „Breska efnahagsbrotadeildin … yfirheyrði … í þarsíðustu viku…“

Mér finnst ég hafa séð svo tekið til orða víðar og oftar að undanförnu, þar sem átt er við „í fyrri viku“.

Það er ekki rangt að segja „í síðustu viku“ þótt betur hljómi „í liðinni viku“ – en „þarsíðustu viku“ er beinlínis klúðurslegt orðalag.” Molaskrifari þakkar sendinguna.

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Sammála þér, Gunnar. Það er mikið rugl með þessa orðanotkun í Ríkisútvarpinu.

  2. Gunnar Jónsson skrifar:

    Hvað þá með það sem var í fréttum gærkvölds hjá Sjónvarpinu (held ég örugglega, fremur en Stöð 2). Í tvígang var greint frá því að eitthvað hefði gerst í næst síðustu viku. Var þá átt við eitthvað sem gerðist í vikunni á undan þeirri síðustu. Þarsíðasta vika er þó skömminni skárra, finnst mér, þótt eðlilegast væri að nota næstliðinni viku eða bara fyrir um hálfum mánuði. Næstsíðasta vika hlýtur eiginlega að boða heimsendi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>