«

»

Molar um málfar og miðla 653

Molaskrifari hnaut um setningu í umfjöllun Morgunblaðsins um franska bílinn Peugot 508 1.6 eHDI.    Verið  er að tala um pósta milli  fram- og  afturhurða sem  skerða útsýni og urðu  til þess að ökumaður varð  tíðum að skekja sér í sætinu til að sannfærast um greiða leið.   Molaskrifari þekkir bara  sögnina   að skekja í merkingunni að  hrista. Er  blaðamaður eitthvað að rugla með  sögnina að skekkja, gera skakkt   eða undið? Skekja sér  er   Molaskrifara   óskiljanlegt, þótt með góðum vilja megi lesa í málið hvað  við er átt.

Umsjónarmaður í morgunútvarpi Rásar tvö sagði (08.07.2011) upp á ensku áður en slúðurfrétarittaritaranum vestur við Kyrrahaf var hleypt að: Og svo ætlum við að skella okkur til ell ei. Þá slökkti Molaskrifari. Líklega var umsjónarmanni ofraun að segja nafn borgarinnar, Los Angeles. Þessir slúður- og slefpistlar eru Ríkisútvarpinu til skammar.  Ambögurnar hver um aðra þvera, – eitthvað ber hæst á góma , eins og Örnólfur Árnason réttilega benti á í   fésbókarfærslu.     

Úr  fréttum  Ríkisútvarps (08.07.2010) …verður handtekinn af Lundúnalögreglunni síðar í dag. Enn  einu sinni er þarna ferðinni óþörf leiðinda þolmynd.  Í fréttum  sama miðils  sama dag var sagt um  tiltekinn atburð að hann hefði gerst  til móts við Kringlumýrarbraut.  Molaskrifari   er á því að þarna  hefði verið betra að nota  aðra forsetningu og  segja:  Á móts við  Kringlumýrarbraut, – í grennd við Kringlumýrarbraut. Til móts  við hefur aðra merkingu í  huga Molaskrifara.

Úr  mbl.is (08.07.2011): … segir að hann verði mögulega að lýsa sig gjaldþrota í kjölfar dómsins,  ekki   mögulega  (e. possibly) heldur  ef til vill eða  hugsanlega.

Molalesandi sendi eftirfarandi: Vil benda þér á þennan óskapnað á mbl.is:
„Bilun í bensínbúnaði“ Hvað er bensínbúnaður“?
„Þegar vélin hrökk aftur í gang skemmdist skrúfan á botninum“
 Hafa skrúfur botn? Hvernig hefðir þú orðað þetta?    Molaskrifari  hefði  sennilega talað um vélarbilun   eða sagt að  bilun hafi orðið í eldsneytiskerfi  vélarinnar og  sagt að  skrúfa  utanborðsmótorsins hefði  rekist í botninn og skemmst. 

Verslaðu gæðavöru,  stóð á  auglýsingaskilti frá Blindrasamtökunum,sem  Molaskrifari sá í Kringlu.  Við verslum ekki vörur. Við kaupum vörur. Þessari auglýsingu ætti að breyta.

 Molaskrifari naut  prýðilegra tónleika á  sumarhátíð Hörpu (o8.07.2011)  þar sem einleikararnir  Maria João Pires og Mxim Vengerov léku með St. Christopher hljómsveitinni frá  Vilníus. Í annars ágætri efnisskrá  segir um Mariu João Pries:   Hún er þekkt fyrir  að vera  sérstaklega lýriskur og skáldlegur tónlistarmaður sem kemur  alltaf á óvart en svíkur aldrei aðdáendur sína með  með einstökum flutningi.  Þetta er  svolítið klaufalega orðað.  Betra hefði verið  að  segja: … sem alltaf kemur á óvart með einstökum flutningi og svíkur aldrei aðdáendur sína, – eða  veldur aðdáendum sínum aldrei vonbrigðum.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>