«

»

Molar um málfar og miðla 655

Í Ríkissjónvarpinu  (10.07.2011) var enn einu sinni talað um starfsmannastjóra  Hvíta hússins ( e. Chief of Staff).  Þessi  maður  er yfirmaður alls starfsliðs  Hvíta hússins. Hann er  ekki  starfsmannastjóri fremur en  Staff  var hershöfðingi, General Staff,  sem  Mogginn talaði um í gamla daga. 

Fyrirsögnin á Staksteinum Morgunblaðsins  (11.01.2011) er: Hvað er í pakkinu?  Ekki fer á milli mála, að Staksteinahöfundur kallar  okkur pakk, sem  erum  fylgjandi aðild Íslands að ESB. Kurteisi og mannasiðir  voru einu sinni aðalsmerki Morgunblaðsins. Ekki fyndið. Bara dónalegt.

Þessi  gamli kaupsýslurefur  á því enn nokkra gambíta uppi í erminni,  sagði fréttamaður  Ríkissjónvarps í fréttum (10.07.2011). Orðið gambítur   er ekki íslenska. Það er  enska og getur   þýtt klækjabragð. Orðið er ekki einu sinni að finna sem slettu í íslenskri orðabók.  Fréttamenn Ríkissjónvarps  eiga að tala mál sem allir  skilja. Molaskrifari er þess  fullviss, að margir þeirra sem hlýddu á fréttamanninn vissu ekkert hvað  orðið gambítur þýðir. Verkstjórn  vantar á  fréttastofu Ríkisútvarpsins.

Æ  algengara er að heyra  n  tvöfaldað þar sem aðeins er eitt n. Í fréttum  af  hlaupinu í  Múlakvísl hefur verið  talað um brúnna,  en ekki brúna. Í morgunútvarpi Rásar tvö (11.07.2011) var  fjallað um veðurspá, spánna var sagt. Hvar er nú ágætur málfarsráðunautur  Ríkisútvarpsins ?

Í fréttum Ríkisútvarps var sagt (11.07.2011),  að símastaurar yrðu reknir  niður  sem undirstöður fyrir  nýja brú á Múlakvísl. Þeir sem enn muna hvernig  símastaurar voru  eiga svolítið erfitt með að  sjá það fyrir sér. Miklu líklegra  er að  raflínustaurar verði notaðir, enda  bæði lengri og  gildari en símastaurar. Líklega enn eitt dæmið um ónákvæmni í fréttum Ríkisútvarpsins. 

Í morgunútvarpi Rásar tvö (11.01.2011) var talað um   bálfarir og greftrun. Smekkvísi umsjónarmanna var á  sínum stað. Þeir  töluðu um að grafa eða grilla. Þessi ummæli  eru svo ósmekkleg sem mest má verða. Þeir sem svona tala við hlustendur  Ríkisútvarpsins kunna enga mannasiði.  Ekki heyrði Molaskrifari betur en  umsjónarmenn Morgunútvarpsins þennan fallega júlí morgun  væru  væru  fjórir, – tveir í   Reykjavík og tveir á Egilsstöðum. Það  fer ekki hjá, að í hugann komi  að …. Því verr gefast …     

Í sunnudagsmogga (10.07.2011) spyr fyrrverandi ritstjóri
Morgunblaðsins hvort ekki sé rétt að einkavæða Landsbanka Íslands sem nú er alfarið í eigu ríkisins. Sjálfstæðismenn einkavæddu Landsbankann í sínum tíma
með því að færa  vinum sínum þessa  þjóðareign á silfurfati. Sænskur
banki vildi eignast hlut  í Landsbankanum. Hann var ekki virtur svars.
Þá var nefnilega  búið að ákveða  að skipta ríkisbönkunum, Landsbanka og Búnaðarbanka  milliþóknanlegra vina Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.  Ef Sjálfstæðisflokkur kemst aftur í ríkisstjórn, verður þá
Landsbankinn afhentur nýjum einkavinum?  Gömlu vinirnir rændu bankann
innanfrá og  hirtu sparnað  þúsunda   einstaklinga, sem sátu  eftir  með sárt ennið. Bankaræningjarnir ganga   enn lausir.  Nú vilja sumir  Sjálfstæðismenn einkavæða Landsbankann upp á nýtt. Er þetta ekki dálítið eins og lygasaga?

8 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir , Bergsteinn, fyrir góðar ábendingar. Það sem ég skrifaði, skrifaði ég út mínum eigin orðaheimi. Þetta orð hefur mér aldrei verið tamt, enda ekki skákmaður !

  2. Bergsteinn Sigurðsson skrifar:

    Sæll Eiður

    Hér er grein eftir Einar Kárason frá 2004 sem nefnist Gambítur eða svikamylla? http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=807901

    Að einn af okkar ágætustu rithöfundum notar orðið finnst mér vera vísbending um að fréttamenn geti líka notað það.

    Ég finn í fljótu bragði fjögur dæmi um notkun orðsins á Alþingi, Hjörleifur Guttormsson, Lúðvík Bergvinsson og Karl V. Matthíasson notuðu það allir í ræðustól.

    Ég hugsa að í þessu tilfelli sé fjarvera orðsins í orðabók fyrst og fremst til marks um að orðabækur eru því miður ekki tæmandi. Tökum sem dæmi orðið yfirhalning. Það getur ýmist merkt skammir, ádrepa eða endurbætur. Í orðabók er það þó aðeins til í fyrr merkingunni.

    Með kveðju
    Bergsteinn

  3. Gunnar Th. Gunnarsson skrifar:

    Eg tek undir med Bergsteini. Thad kaemi mer a ovart ef fullordin manneskja vissi ekki hvad gambitur thydir.

  4. Eiður skrifar:

    Það hefur samt ekki náð inn í íslenska orðabók. Þótt þetta sé skákmönnum tamt á tungu, er ekki svo um alla.

  5. Eiður skrifar:

    Sæll Bergsteinn, Ég fletti aðeins upp í íslensku orðabókinni, en engu að síður er ég nokkuð viss um að þetta er ekki orð,sem nær allir skilja.

  6. Gísli skrifar:

    Skákmenn hafa lengi (a.m.k. í nokkra áratugi) notað orðið gambít yfir það bragð að fórna peði í upphafi skákar til að ná frumkvæði og sóknarmöguleikum. Sjálfsagt er það rétt að orðið sé komið úr ensku en að mínu mati hefur það löngu unnið sér þegnrétt í íslensku, og Orðabók háskólans og Stofnun Árna Magnússonar virðast vera á sama máli, sbr. síðu um beygingarlýsingu íslensks nútímamáls.

  7. Jón Óskarsson skrifar:

    Ekki kæmi mér á óvart ef málfarsráðunauturinn tæki pokann sinn og færi frá þessu sökkvandi fleyi.

    Horfandi upp á skipstjórann og yfirmennina taka negluna úr og senda þeim fingurinn sem vilja setja hana í aftur.

  8. Bergsteinn Sigurðsson skrifar:

    Sæll Eiður

    Orðið gambítur er að finna bæði í íslenskri stafsetningarorðabók og í beygingarlýsingu íslensks nútímamáls. Þá er orðið að finna í ensk-íslenskri orðabók sem þýðing á orðinu gambit, það sagt merkja upphafsleikur. Orðið er líka allþekkt úr skákmáli og slái maður því upp á Google, má sjá að ófáir bloggarar nota það í pistlum um t.d. stjórnmál. Merkingin er því ekki jafn óljós og þú telur.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>