«

»

Molar um málfar og miðla 657

Í morgunfréttum Ríkisútvarps klukkan sjö  (12.07.2011) var ein frétt. Ein frétt um eldsvoða í  hjólbarðahrauk við Sundahöfn. Hvað starfa margir  á fréttastofu Ríkisútvarpsins?   Umsjónarmaður  Morgunútvarps  á Rás tvö  sagði frá  þessum eldsvoða með þessum  orðum:  Þar sem sótsvartur  reykur leggur yfir,…  Reykur leggur ekki yfir. Reyk leggur yfir. Fréttamaður  fór  hárrétt með þetta í fréttunum   rétt áður. 

Það gerist æ algengara,  að  menn vita ekki hvaðan  lagt var af stað  þegar komið er inn í miðja setningu, eða  að  fréttaskrifarar halda að  allar  setningar verði að  byrja  á nafnorði í nefnifalli.  Tvö ný dæmi. Úr mbl. is  (13.07.2011): Ökumaður sem var á leið um Möðrudalsöræfin varð litið í baksýnisspegilinn …..  Ökumanni, sem var á leið… varð litið í ... .Úr  sjöfréttum  Ríkisútvarps sama dag:  Maðurinn sem slasaðist í bifhjólaslysi ….er haldið í öndunarvél ..   Manninum er haldið í öndunarvél….    Það þarf verulegan skort á  máltilfinningu  til að heyra þetta ekki.

Og hér er svona svipað  dæmi úr mbl.is (13.07.2011) Framkvæmdir við bráðabirgðabrú yfir Múlakvísl gengur vonum framar samkvæmt fréttatilkynningu frá Vegagerðinni.  Framkvæmdir  ganga samkvæmt vonum  ætti þetta að vera.

Úr mbl.is  (12.07.2011) Um 100 manns hefur nýtt sér þjónustu útleigustöðva sem Bílaleiga Akureyrar kom upp …   Molaskrifari hallast að því að hér  hefði átt að  segja:  Um 100 manns hafa nýtt sér …

Molavin  er  Molaskrifara haukur í horni. Hann sendi eftirfarandi: ,,Sveinn H. Guðmarsson, fréttamaður Ríkisútvarpsins, hefur ítrekað notað

nafnið “Hú” yfir WHO, Alþjóða heilbrigðisstofnunina, sem er ein af

stofnunum Sameinuðu þjóðanna. Þessi framburður er ekki einu sinni

notaður í ensku máli, nema yfir spurnarfornafnið “who” (hver?). Þar er

jafnan sagt W-H-O og ætti því að vera: “vaff-há-o”.”   Réttmæt ábending.

Það var hrollvekjandi að sjá í fréttum Ríkissjónvarpsins (11.07.2011) viðskilnaðinn á Gaddstaðaflötum við Hellu eftir útihátíð helgarinnar. Makalaust að heyra að  unga fólkið skyldi skilja eftir  dýran viðlegubúnað og  útivistarfatnað í haugum. Það  hefur   eitthvað mistekist í uppeldinu. Mistekist alvarlega. Mistekist að kenna   unglingunum  almenna mannasiði og að  bera virðingu  fyrir verðmætum. Uppalendur  hljóta að líta í eigin barm. 

Úr mbl.is (11.07.2011): En hlaupararnir náðu aðeins nokkrum klst áður að hlaupa yfir Múlakvíslbrúna áður en hún hvarf. Í fréttum er  skammstöfunin klst. í stað klukkustundar hvimleið og óþörf.  Að  auk ætti að tala um  Múlakvíslarbrúna. Ekki  Múlakvíslbrúna. Dálítið einkennilegt að segja  að brúin hafi horfið. Betra hefði verið að segja: … áður en brúna tók af.

Það var prýðilega valið orð  hjá  fréttamanni  Stöðvar  (11.07.2011) tvö  er talað  var um umdeilda stofnfrumumeðferð  gegn  mænuskaða  sem   í boði er á Indlandi  að  tala um gylliboð. Gylliboð er ginnandi en ótryggt  tilboð, segir íslensk orðabók.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>