Svolítið þótti Molaskrifara einkennilegt að heyra í fréttum Stöðvar tvö talað um að breikka ströndina við Vík í Mýrdal. Var ekki verið að gera eða byggja varnargarða? Molaskrifari kann heldur ekki að meta, þegar sagt er í Ríkisútvarpinu að menn hafi róið lífróður að því að koma þjóðarskútunni í höfn (14.07.2011). Betra hefði verið að tala um að róa lífróður til að koma þjóðarskútunni í höfn. Það var heldur ekki gott orðalag þegar sagt var að tilkynnt hefði verið um að , nægt hefði að segja að tilkynnt hefði verið að …
Ekkert um.
Í áttafréttum Ríkisútvarpsins í morgun (16.07.2011) var sagt um ferðir Herjólfs: Allar ferðir dagsins seinka því um tvær klukkustundir . Ambagan var endurtekin í níufréttum. Hlustar enginn yfirmaður eða fréttamaður á fréttirnar? Dettur þeim ekki í hug að hringja og leiðrétta? Ferðunum seinkar. Þær seinka ekki. Endemis rugl !Kannski heyra þeir þetta ekki. Það er líklegast. Það hefur margsýnt sig, að við Ríkisútvarpið starfa nokkrir fréttamenn, sem ekki ætti að hleypa að hljóðnema með handrit, nema einhver með svolítinn snefil af máltilfinningu sé búinn að lesa handritið og leiðrétta. Hvar er málfarsráðunautur? – Ekki voru neinar fréttir af Herjólfi í tíufréttum. Ambagan gekk hinsvegar aftur í hádegisfréttum !
Það er sérstakt afrek hjá dagskrárstjórum Ríkissjónvarpsins að grafa upp ófyndnar dellumyndir eins og Öfund (Envy), sem okkur var sýnd á besta tíma á föstudagskvöldið. (15.07.2011). Internet Movie Database gefur myndinni 4.6 af 10. Falleinkunn.
Grillþáttur í Ríkissjónvarpi þar sem þrír kokkar framreiddu kræsingar (14.07.2011) var ágætur. Flottir réttir, en kannski dálítið flóknir. Gott væri að hafa eitthvað einfaldara í bland. Að ósekju hefði málfar mátt vera betra. Það var óþarfi að tala um lamba prime, crushed ice, lemon gras,og nice og fluffy. Það er hægt að segja þetta á íslensku. Ólíkt var þetta samt betra en það sem boðið er upp á af þessu tagi á Stöð tvö og ÍNN. En er það ekki undarleg tilviljun að samtímis því sem byrjað er að sýna þessa þætti kemur út matreiðslubók með sama nafni og þættirnir, eftir þessa sömu kokka? Enn er blandað saman auglýsingum og þáttagerð í Ríkissjónvarpinu. Kokkarnir og útgefandi bókarinnar hljóta að borga drjúgan skilding fyrir þættina.
Á nafnlistanum sem birtur er á skjánum í lok hvers fréttatíma Ríkissjónvarpsins ætti nafn vaktstjóra, sem ber ábyrgð á fréttatímanum saman að vera efst, en nafn fréttastjórans neðst.
Í veðurfréttum frá Veðurstofu Íslands (15.07.2011) var sagt að útlit væri fyrir þurru og björtu veðri. Segja má að Veðurstofan hafi spáð þurru og björtu veðri og útlit hafi verið fyrir þurrt og bjart veður. Þannig hefði Molaskrifari orðað þetta.
Pönduhúnn kom við sögu í fréttum Stöðvar tvö (16.07.2011). Sagt var að honum yrði hjúkrað til heilsu. Það var ágætlega að orði komist.
Þótt hér sé oft agnúast út í Ríkisútvarpið skal því haldið til haga á að Rás eitt er oft frábært efni, bæði nýtt og frá liðnum árum. Gildir það bæði um tónlist og talað mál. Kannski eru það ellimörk á Molaskrifara, að margt hið besta ,sem hann heyrir á Rás eitt eru endurteknir þættir úr gullkistu Ríkisútvarpsins, sem nú má ekki lengur heita Ríkisútvarp. Ef Molaskrifari væri spurður hvort hann hefði unnið hjá RÚV væri svarið nei. Hann vann hinsvegar hjá Ríkisútvarpinu frá því í byrjun árs 1967 til haustsins 1978 er hann tók sæti á Alþingi.
Er að … er að… Þetta er allt að ganga eins og það á að ganga , sagði fréttamaður Ríkisútvarps í sexfréttum (15.07.2011). Hvernig hefði verið að segja: Þetta gengur eins og í sögu, eins og í lygasögu, þetta gengur ljómandi vel, gengur eins og best verður á kosið. Bara ekki segja þetta er að ganga !
Hrós fær umsjónarmaður Íslands í dag á Stöð tvö fyrir að tala um rjómablíðu í Reykjavík (15.07.2011). Það er uppörvandi að heyra notað annað orð um góðviðri en bongóblíða, sem Molaskrifari er hreint ekki hrifinn af og virðist vera eina orðið, sem allt of margir fréttamenn kunna um veðurblíðu.
3 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Helgi skrifar:
17/07/2011 at 20:48 (UTC 0)
Enda eru þeir búnir að leiðrétta hana….
Eiður skrifar:
17/07/2011 at 20:43 (UTC 0)
Það er misskilningur, að ég fari mýkri höndum um DV en aðra fjölmiðla. Sé raunar ekkert athugavert við fyrrisögninaa, sem þú fárast yfir.
Helgi Pálsson skrifar:
17/07/2011 at 19:19 (UTC 0)
Sæll.
Mér hefur þótt þú fara frekar mjúkum höndum um DV menn í sambandi við málfar eða öllu heldur ambögur. Er þó af nógu að taka, að mínu mati.
T.d. þessi fyrri sögn þar sem blaðamaður missir algerlega vald á sjálfum sér og þrátt fyrir marg endurtekinn lestur er maður ekki alveg viss um hver meiningin er.
Bestu kveðjur
Helgi
http://www.dv.is/frettir/2011/7/17/samfylkingin-daelir-fe-i-landsbyggdarkjordaemin/