Breska Ríkisútvarpið BBC er þekkt fyrir að misskilja allt milli himins og jarðar og geta yfirleitt ekki farið rétt með nokkurn skapaðan hlut.
Nú berast þær fregnir af forsetaskrifstofu lýðveldisins, að BBC hafi misskilið Ólaf Ragnar Grímsson svo að með ólíkindum er. Hann hafi alls ekki sagst ætla að höfða mál gegn bresku þjóðinni, sem menntaði hann víst að hluta og veitti honum doktorsgráðu frá Manchesterháskóla minnir mig. Ef Ólafur Ragnar hefði farið í mál við Breta, sem hefði auðvitað verið alveg mátulegt á þá, hefði sjálfsagt einhver sagt að sjaldan launaði kálfur ofeldi, — eða þannig. Ólafur er dálítið sleipur í ensku svo ekki ættu tungumálaerfiðleikar að vera orsök þessa misskilnings. Annað hvort var fréttamaðurinn heyrnardaufur eða bara auli. Þeir eru víst margir slíkir sem starfa fyrir BBC, annálaðir fyrir rangan og staðlausan fréttaflutning.
Líklega var þessi fréttamaður bara einn af þessum BBC aulum, – rati á borð við erlendu sendiherrana ,sem misskildu Ólaf Ragnar allir með tölu í hádegisverðarboðinu fræga í danska sendiráðinu í Reykjavík.
Meira um ræðuhöldin í þeirri veislu síðar.
1 athugasemd
Ekkert ping ennþá
Ragnhildur Kolka skrifar:
19/01/2009 at 23:08 (UTC 0)
Já, þeir eru nú meiri ratarnir sem á vegi Ólafs verða. Það er með ólíkindum hvað honum tekst að hnjóta um fólk sem hefur ekki grunnkunnáttu í ensku. Hvernig var ekki með blaðamannsstaulann sem hélt að hann hefði sagst hafi fundið upp orkuveituna.
Það er til lítils að vera ofurmenni á enska tungu þegar innfæddir eru enn að bisa við stafrófið.