Hvað er áfengiseining sem talað var um í fréttum Ríkisútvarpsins (23.03.2012)? Líkleg er þetta einhverskonar aulaþýðing úr ensku.
Jóhanna Bogadóttir sendi Molum eftirfarandi (23.03.2012): Mig langar að vekja athygli á orðalagi sem var í frétt á baksíðu Morgunblaðsins í dag. Þar stendur: Þau voru eldhress skólasundskrakkarnir
… Hér ætti augljóslega að vera ÞEIR en ekki ÞAU. Því veldur sambeyging
sem er í íslensku máli. Hefði blm. skrifað skólasundsbörnin ætti að vera
þau.
Einnig langar mig til að benda á auglýsingu frá Íslenskri getspá en þar er
sagt hundruðir milljóna . Fleirtalan af hundrað er hundrUÐ ekki
hundrUÐIR. – Og Jóhanna bætir við: Í þættinum Virkum morgnum (Á Rás tvö í Ríkisútvarpinu) segja þau skötuhjú AF og GD ævinlega þetta var gott gisk . Er það orð yfirleitt tlí íslensku. Af hverju nota þau ekki bara ágiskun? – Molaskrifari þakkar Jóhönnu þessar línur. Hann getur ekki svarað hversvegna þessir eftirlætis ambögusmiðir stjórnenda Ríkisútvarpsins nota ekki orðið ágiskun, Kannski þekkja þau ekki orðið. Gott væri að fá fáeinar línur frá einhverjum málfróðum manni um sambeygingu orða í íslensku.
Í þættinum Gettu betur í Ríkissjónvarpinu (23.03.2012) sagði spyrill að í Háskólabíói kvöldið áður hefði verið þrungin spenna. Spyrillinn átti við að andrúmsloftið í salnum hefði verið þrungið spennu, spennuþrungið.
Úr dv.is (23.03.2012): Tollgæslan á Dulles-alþjóðaflugvellinum í Washington höfðu hendur í hári 52 ára konu sem reyndist vera með heróín í fórum sínum. Hér hefði átt að segja: Tollverðir, eða tollgæslumenn … höfðu hendur í hári ……
Litla flugan hennar Lönu Kolbrúnar Eddudóttur á Rás eitt á föstudagskvöld (23.03.,22012) var helguð Magnúsi Péturssyni píanóleikara. Fínn þáttur eins og ævinlega hjá Lönu Kolbrúnu. Saknaði þess þó að heyra ekki hið undurfallega lag Magnúsar Vals móderató sem heyrist alltof sjaldan. Prýðilegur var einnig þáttur Péturs Halldórssonar Við sjávarsíðuna upp úr klukkan átta á laugardagsmorgni (24.03.2012). Þessir þættir Péturs eru jafnan áhugaverðir og merkileg söguleg heimild. Mikið af úrvalsefni er að finna á Rás eitt.
Prýðilegur þáttur í Ríkissjónvarpinu á sunnudagskvöld (25.03.2012) helgaður minningu Ólafs Þórðarsonar í Ríó tríói. Ríkissjónvarpið getur vissulega gert vel, en það gerir það of sjaldan.
Þeir sem velja efni handa okkur í Ríkissjónvarpinu hafa undarlegt dálæti á vampírum. Vikulega er þáttur á dagskrá Ríkissjónvarpsins um vampírur og drauga og aðfaranótt laugardagsins (24.03.2012) sá Ríkissjónvarpið ástæðu til að endursýna kvikmynd þar sem ,,blóðþyrstar vampírur herja á íbúa í afskekktum smábæ í Alaska”. Óskandi væri að Efstaleitismenn héldu þessu áhugamáli sínu meira fyrir sjálfa sig. Molaskrifari efast mjög um almennan áhuga sjónvarpsáhorfenda á vampírum.
Ágætur og þarfur pistill Gísla Einarssonar í Borgarnesi um málshætti , – ekki síst málshætti í páskaeggjum í morgunþætti Rásar tvö (26.03.2012)
Það þykir stórfrétt á mbl.is að formaður Framsóknarflokksins skuli reyna að vera fyndinn í Silfri Egils (25.03.2012). http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/03/25/sigmundur_david_slaer_a_letta_strengi/ Þetta er auðvitað rétt fréttamat hjá mbl.is !
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
26/03/2012 at 13:40 (UTC 1)
Kærar þakkir fyrir þetta, Bergsteinn, – en þessi skýring hefði þurft að fylgja fréttinni ef vel hefði átt að vera.
Bergsteinn Sigurðssom skrifar:
26/03/2012 at 11:46 (UTC 1)
Af vef Lýðheilsustöðvar: „Þegar talaði er um ,,hóflega” drykkju eru viðmiðin oft sett við tvær einingar af áfengi á dag fyrir karla og ein áfengiseining á dag fyrir konur. Ein áfengiseining miðast ofast við 10-12 g af áfengi eða sem svarar 15cl af víni, 33cl af áfengum bjór og 4cl af sterku áfengi. „