Það var ágætlega að orði komist í fréttum RÚV í gærkveldi ,að laxeldi hér á landi væri að vaxa fiskur um hrygg.
Á Stöð tvö var í fréttum talað um að eitthvað hefði vakið „blönduð viðbrögð“. Átti auðvitað að vera „blendin viðbrögð“.
Í einhverjum ljósvakamiði var talað um eftirmáli yrðu ekki vegna tiltekins máls. Þetta átti að sjálfsögðu að vera eftirmál, – það er að segja eftirköst eða afleiðingar. Eftirmáli er hinsvegar niðurlagsorð, eða stuttur pistill eftir lok meginmáls.
Við afhendingu tónlistarverðlauna hrutu ýmsir molar , ekki allir gullslegnir. Þar var til dæmis talað um söluárangur ! Þar bar ræða Þorgerðar Ingólfsdóttur af sem gull af eiri, er hún tók við verðskulduðum heiðursverðlaunum föður síns.
Skrifarar eiga ekki að nota orðtök ,sem þeir hafa ekki á valdi sínu. Þannig segir Alþingismaður á bloggsíðu sinni í kvöld: „Samfylkingin þraut örendið í samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn.“ Þarna á að sjálfsögðu að standa „Samfylkinguna þraut….“.
Loks er rétt að nefna að aftur og aftur heyrir maður sömu erlendu staðanöfnin borin rangt fram. Reyndasti fréttalesari ljósvakans talaði í fréttum Stöðvar tvö í kvöld um ríkið (skrifað eftir framburði) ko´nektiköt. Réttur framburður er ko´nettiköt. Smáatriði , en pirrandi samt. Rétt eins og enn heyrist talað um arkansas en ekki arkansaw. Það eru til fínar handbækur um framburð ,sem fólk á að gefa sér tíma til að fletta upp í.
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Kolla skrifar:
18/02/2009 at 23:04 (UTC 0)
Það kom fram a haustdögum að moðurmalskennsla her a landi er ekki eins fyrirferðarmikil i namsskranni og moðurmalskennsla a Norðurlöndum. Við þurfum að bæta okkur og gera kröfur til fjölmiðlafolks að vanda malfar sitt an þess að vera yfirdrifið.
Eiður skrifar:
18/02/2009 at 22:30 (UTC 0)
Stenst ekki mátið að bæta þessari stórkostlegu setningu við. Fréttin birist á visir.is nú í kvöld.
„Miklir vindar eru á svæðinu sem ýttu skipinu að skerjum að sögn Patrick Shaw forstjóri félagsins sem á skipið.“
Makalaust !