Á Morgunvakt Rásar 1 á RÚV í morgun var talað um “þrjú verðlaun”. Orðið verðlaun er fleirtöluorð. Þessvegna hefði verið rétt að tala um þrenn verðlaun. Þetta er algeng villa. Rataði meira að segja inn í áramótaávarp forseta Íslands fyrir fáeinum árum. Í Morgunblaðinu var svo tekið til orða í dag að ekki hefði verið “gengið á eftir málinu”. Það er hægt að ganga eftir svari, krefjast svars. Ekki er hægt að ganga á eftir svari eða ganga á eftir máli. Það sem blaðamaður Morgunblaðsins líklega átti við var að þessu tiltekna máli hefði ekki verið fylgt eftir.
Í fréttum RÚV kl. 1800 var sagt að væntanlegur frambjóðandi væri fæddur á Neskaupstað. Þetta er andstætt málvenju. Það er aldrei talað um að fara á kaupstað eða að eitthvað gerist á kaupstað.
Á mínu bernskuheimili var raunar aldrei talað um Neskaupstað heldur ævinlega Norðfjörð þar sem við áttum og eigum frændgarð.
3 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson) skrifar:
20/02/2009 at 16:43 (UTC 0)
Ég er sammála þér, Eiður. Ég er svo sem enginn sérstakur hreintungustefnumaður en rétt skal vera rétt. Hvað varðar á og í er, eins og komið hefur fram, háð málvenju oft og tíðum. Ég fæddist t.d. á Húsavík en álverið í Straumsvík.
Dunni skrifar:
20/02/2009 at 12:27 (UTC 0)
Fyrir austan var nú reyndar alltaf talað um að fara á Norðfjörð eða fara á Neskaupsstað ef menn vildu vera virðulegir í máli.
Þannig að ég held að það fari svolítið eftir málvenjum á hverjum stað hvort talað er um á Neskaupstað eða í Neskaupstað. Hugsa að ég myndi telja að ég ætti heima á Eskifirði en þeir sem búa á sveitabænum fyrir innan kaupstaðinn eiga heima í Eskifirði.
Sumir eiga heima í Borgarfirði, fyrir sunnan, en þeir sem eiga heima á Borgarfirði eru að austan. Svo geta menn deilt um hvað er rétt og hvað er rangt. Eitt er víst. Að dauðhreinsað tungumál er leiðinlegt tungumál og sennilega líka ljótt.
ÞJÓÐARSÁLIN skrifar:
20/02/2009 at 09:35 (UTC 0)
Sæll Eiður!
Þú hefur örugglega heyrt hversu margir segja nú tvemur: Ég henti tvemur steinum í sjóinn. Þetta orðalag heyri ég mjög oft. Nýverið talaði kona í útvapinu um að EXA við bókstaf í kosningum. Ég heyri þetta reyndar oft hjá ungum krökkum, sem nota það yfir að hætta í forriti.