«

»

Molar um málfar III

Erfiðlega gengur  fjölmiðlungum  með orðið verðlaun. Í sjónvarpsfréttum RÚV í kvöld var fjallað um Blaðamannaverðlaun. Fréttaþulur sagði: “Þrenn verðlaun voru veitt, – eitt í hverjum flokki”. Átti    sjálfsögðu að vera “ein í hverjum  flokki” –  ein verðlaun, tvenn verðlaun , eins og  vikið var að í síðustu Molum. Viðmælandi  fréttaritara  sagði í sama fréttatíma í  kvöld, að “ekki gætti  togstreitu í garð útlendinga”.  Þessa orðnotkun á ég fremur  bágt með að  skilja,  þótt mig  gruni hvað verið er að reyna að segja. Í útvarpi var í  dag  talað um “að bæta upp  fyrir  eitthvað”. Þarna hefði  mátt  tala um    bæta eitthvað upp eða  bæta fyrir eitthvað. Ekki “upp fyrir”. Þá var líka talað um að “hafa verkefni   fyrir  höndum” í merkingunni  að eiga  fyrir höndum  að gera eitthvað. Í vefútgáfu DV stóð í  gær: Hinni 86 ára gömlu Arlene Hald frá Nebraska í Bandaríkjunum varð fremur undrandi þegar hún fékk símareikning….” Það er  ekki einsdæmi að lesa  svona lagað, — því miður. Þarna  geymir  skrifari hvaðan hann lagði upp, þegar hann er kominn í miðja  setningu. Sannkallað  gullfiskaminni. Þarna gæti  staðið “ Hinni  86 ára  gömlu… var brugðið…”  Eða: “Hin 86 ára  gamla…. varð fremur undrandi…” Það er auðvitað rétt sem  nokkrir sögðu í athugasemdum   við  síðustu Mola um  forsetninganotkun með  staðanöfnum, að þar er sumt á  reiki. Það er til dæmis  bæði sagt í Siglufirði og á Siglufirði. Um þetta eru  engar  reglur. Það verður  að læra  hvaða  forsetningu  ber að nota með  hverju staðarheiti og  virða málvenjur  heimamanna. Í þessu eru engin  rök. Ekki fremur en  um notkun forsetninga í  ensku. Við  förum upp á  Akranes , en upp í Borgarnes. Austur  á Breiðdalsvík, en austur í Vík í Mýrdal og  svo mætti áfram  telja. 

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson) skrifar:

    Nú mun prófarkalestur vera að mestu aflagður á fjölmiðlum. Af þeim sökum eru fleiri villur en góðu hófi gegnir í dagblöðum. Þar að auki virðist þeim fjölga sem finnst í lagi að rita og tala vont mál. Verst finnst mér þegar spekingar útskýra mál sitt með því að snúa því yfir á ensku. En hvað sem okkur finnst mun íslenskan deyja út eins og önnur tungumál fámennra þjóða.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>