«

»

Molar um málfar og miðla 1127

Óneitanlega hefur internetið ollið vonbrigðum, var sagt í fréttum Stöðvar tvö (03.02.2013). Sögnin að valda veldur víða vandræðum. Internetið hefur valdið vonbrigðum hjá sumum. Líkast til þarf sérkennslu til að kenna notkun sagnarinnar á sumum fréttastofum.

Valgeir Sigurðsson fyrrum blaðamaður sem heldur vöku sinni í hárri elli og fylgist vel með sendi Molum þessar línur: ,,1) Kærar þakkir til Molaskrifara fyrir afbragðsgott viðtal í Sunnudags-Mogga í gær.
2) Auðvitað ættu allir Íslendingar að kunna hið alþekkta ljóð, „mínir vinir fara fjöld“. En – í heildarútgáfu á verkum Bólu-Hjálmars, sem Finnur heitinn Sigmundsson sá um, er einmitt þessi skemmtilega villa á bls. 293. Þar stendur „rifinn“, en ekki „rofinn“. – Ég man að ég móðgaðist herfilega og krotaði í spánnýja bókina!” Molaskrifari þakkar Valgeiri línurnar og vinsemd alla tíð.

Áhugamaður um málfar í fjölmiðlum sendi þessar línur (04.02.2013): ,,Enn leita ég til þín, miður mín yfir málfari sumra fréttamanna. Í morgun
tekur einn sig til og notar orðið ,,drónur“ (,,e. drones“, bendir hann á)
um ómannaðar árásarvélar CIA. Og það m.a.s. í stórri fyrirsögn í Mbl. Ég
hef áður skrifað þér um það hve upplagt væri að kalla þær þrumuvélar, enda
er drone sennilega náskylt orðinu þruma. Þá langaði mig til að biðja þig
að beita þér fyrir því að blaðamenn noti íslenzkt heiti en ekki útlenzkt
afstyrmi. Og enn vil ég koma því sama á framfæri við þig.” Molaskrifari þakkar sendinguna. Góð hugmynd að kalla þessi vígtól þrumuvvélar eða bara þrumur?

Undarlegur og lítt skiljanlegur Wikileaks-halli var á fréttaflutningi Ríkissjónvarps (04.01.2013) um það um það hvort FBI- menn hefðu verið hér í heimildarleysi eður ei. Við eigum að geta treysta fréttaflutningi Ríkissjónvarps, en eitthvað skortir á það í þessu tilviki. Flestir áttu sjálfsagt von á að fjallað yrði um málið í Kastljósi um kvöldið. Nei, – þá var fjallað um Söngvakeppnina , – enn einu sinni ! Kastljósi ber sérstök skylda til að stíga varlega til jarðar þegar fjallað er um mál sem tengjast fyrrverandi starfsmönnum. Það fór heldur ekki mikið fyrir stóra Wikileaks-málinu í Kastljósi á þriðjudagkvöl’ (05.02.2013)

Ríkharður III. fundinn segir á fréttavef Ríkisútvarpsis (04.01.2013). Ekki var vitað til þess að hans hefði verið saknað.

Fróðlegt væri að vita hver kostnaður Ríkissjónvarpsins er við framleiðslu og þátttöku í Evrópsku Söngvakeppninni. Sömuleiðis hver kostnaðurinn var við gerð þáttanna Dans, dans, dans og hvað þetta samanlagt er hátt hlutfall af því fjármagni sem ætlað er til innlendrar dagskrárgerðar. Það er sjálfsagt borin von að eigendur Ríkisútvarpsins fái upplýsingar af þessu tagi. Sennilega er það skoðun þeirra sem stjórna að okkur komið þetta ekkert við. En það sakar ekki að spyrja.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – ESG

6 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Valur skrifar:

    Ef ég fengi nú bara krónu í hvert skipti sem ég heyri þessa vísu. Vofa á strax betur við heldur en þruma, það finnst mér.

  2. Eiður skrifar:

    Hugmyndinni er hér með komið á framfæri. Hvað um Móra?

  3. Sigurjón skrifar:

    Valur er á veiðum,
    vargur í fuglahjörð,
    veifar vængjum breiðum,
    vofir yfir jörð.

    (JH)

    Væri ekki hægt að kalla þetta apparat vofu?

  4. Eiður skrifar:

    Gaman að þessu ,Valgeir, og gott að heyra fá þér eins og ævinlega.

  5. valgeir sigurðsson, fyrrv. blaðamaður skrifar:

    Kærar þakkir, Molahöfundur. Gaman að halda sambandi við þáttinn. Ég veit að ég hefði átt að hafa gæsalappir utan um orðið „skemmilegur“, því að það er ekki mitt mál. Ég lærði þetta skrýtna orð af víðfrægum dagblaðaþrasara fyrir hálfri öld. Hann notaði það um villur, sem hann sagði vera bæði til skemmda á textanum og skammar. Mér fannst þetta dálítið kyndugt, en gríp þó stöku sinnum til þess.
    Kær kveðja. V.S.

  6. Valur skrifar:

    Afhverju er svona upplagt að kalla þessar vélar þrumuvélar? Þessar vélar fljúga yfirleitt það hátt að ekki heyrist mikið í þeim á jörðu niðri. Þar fyrir utan að „drone“ er karlkyns býfluga og þaðan held ég nú að þetta nafn sé komið. Ég hef svo sem ekki betri hugmynd í augnablikinu en þrumuvél er allveg fráleitt að mínu mati.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>