«

»

Molar um málfar og miðla 1128

Af mbl.is (05.02.2013): Þar var ráðist á húsráðanda og af honum stolin bæði tölva og sjónvarp. Hér hefði farið betur á að segja, til dæmis: Þar var ráðist á húsráðanda og frá honum stolið bæði tölvu og sjónvarpi.

Þá er búið að hlýna , var sagt í veðurfréttum Stöðvar tvö ( 05.02.2013). Þá hefur hlýnað, hefði verið betra.

Dæmigerð var halelúja umfjöllun Stöðvar tvö um Ólaf Ragnar Grímsson og Icesave (05.02.2013) Þar var ekki nefnt einu orði að hann hefði sagt við Skynews, við umheiminn að Efta-dómstóllinn væri alls ekki dómstóll heldur gæfi einskonar lögfræðilegar álitsgerðir sem væru hreint ekki bindandi fyrir Íslendinga. Ekki mjög vinnubrögð sem við búum stundum við frá íslenskum fjölmiðlum.

Viðtalið við Vilborgu Davíðsdóttur í Íslandi í dag á Stöð tvö (05.05.2013) var í senn eftirminnilegt og áhrifaríkt. Það var hinsvegar álitamál hvort það var smekkleg dagskrárgerð þegar í kjölfar þessa einlæga og óvenjulega samtals kom auglýsing ( án þess þó að þess væri getið að um hreina auglýsingu væri að ræða) fyrirtækis sem skipuleggur ferðir til Kína.

Lesandi Mola skrifar (04.02.2012): ,,Ég hef nokkrum sinnum lesið pistla þína og hef gagn og gaman af.
Eitt er það sem fer talsvert í taugarnar á mér og mig langar til að biðja þig að vekja athygli á, en það er ofnotkun nafnháttar. Nú er ég ekki sérfróður um íslenska tungu en ég gæti haldið að rangt væri að segja ,,þetta er ekki að ganga“ eða ,,ég er ekki að nenna þessu.“ Hvað finnst þér?” Þetta hef ég oft nefnt. Orðalag af þessu tagi sér maður og heyrir æ oftar. Hreint ekki til fyrirmyndar. Eðlilegt er að segja: Þetta gengur ekki. Ég nenni þessu ekki. Þakka bréfið.

Glöggur lesandi bendir á að mbl.is ætti að fá hrós fyrir að tala um Elfráð ríka. Í fréttinni var fyrst talað um Alfreð mikla en síðan var því breytt í þá veru sem er í fornritum okkar og hefur tíðkast fram á þennan dag. Þetta er hárrétt ábending og hólinu til haga haldið.

Ríkissjónvarpið heldur áfram þeim leiða sið að endursýna efni og geta þess ekki að efnið hafi verið sýnt áður. Á mánudagskvöld (04.01.2013) var endursýndur þáttur úr sænsku Millennium þáttaröðinni, en þess látið ógetið að verið var að endursýna þáttinn. Enn er spurt, hversvegna segir Ríkissjónvarpið okkur ósatt? Þetta er ekki trúverðugt. Hversvegna má ekki segja okkur satt? Hver ber ábyrgð á ósannindunum? Hver er ábyrgur fyrir vinnubrögðum af þessu tagi? Hvað er að því að segja að endursýnt efni sé endursýnt efni ? Það er hreint ekkert að því.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – ESG

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Alexander skrifar:

    Hins vegar eru tvö orð (sjá: http://www.ismal.hi.is/cgi-bin/malfar/leita)

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>