«

»

Molar um málfar og miðla 1143

Af mbl.is (21.02.2013): Segir hann að vandamál vegna hækkandi greiðslubirgði lána, sem afleiðing af höfuðstólshækkun, megi að nokkru leiti skýra með mikilli skuldasöfnun heimilanna. Hér hefur blaðamanni mbl.is fatast flugið. Hann talar um greiðslubirgði, en á við greiðslubyrði.

Í tónleikatilkynningu frá Salnum í Kópavogi (21.02.2013) segir: … en hún vakti athygli í fyrra þegar hún fór með sigur úr bítum í Barry Alexander Vocal International Competition – BAVIC og söng við það tilefni í Carnegie Hall, New York. Hér hefði verið betra að segja: .. bar sigur úr býtum …. og söng af því tilefni í Carnegie Hall í New York.

Í Kastljósi (21.02.2013) var fjallað um innkaup Landspítalans á hjúkrunarvörum og sagt: …kaupir heilbrigðisvörur, önnur en lyf. Kaupir heilbrigðisvörur, aðrar en lyf, hefði verið betra orðalag.

Trausti Harðarson bendir á eftirfarandi í frétt á mbl.is (21.02.2013): http://www.mbl.is/frettir/erlent/2013/02/21/fronsku_fjolskyldunni_bjargad/
,,Skortur á umhugsun:
Sjö manna franskri fjölskyldu, sem rænt var í norðurhluta Kamerún fyrr í vikunni, er fundin heil á húfi í norðurhuta Nígeríu”. Við gætum líka kallað þetta hroðvirkni.

Í fréttum af Landsfundi Sjálfstæðisflokksins í Ríkissjónvarpi (21.02.2013) var sagt um ræðu formanns: Ræða hans var gríðarlega vel tekið. Ræðu hans var mjög vel tekið, hefði verið betra orðalag. Tvímælis orkar hvort hið gildishlaðna orð gríðarlega átti erindi í frétt Ríkissjónvarpsins.

„Ég veit varla hvað ég á að segja .Ég er hrikalega stolt og ofboðslega þakklát,…”, sagði nýkjörinn varaformaður Sjálfstæðisflokksins í gær (24.02.2013). Orðaforðinn í góðu lagi !

Molaskrifari heyrði glefsur úr umræðum á Alþingi um Ríkisútvarpið. Margir þingmenn hrósuðu stjórnendum Ríkisútvarpsins (Það er ekki sjálfgefið að það borgi sig fyrir þingmenn að gagnrýna Ríkisútvarpið). Hrósið merkir líklega að Alþingismenn séu sáttir við að Ríkissjónvarpið sér að stórum hluta rekið eins og amerísk vídeóleiga sem býður þjóðinni þriðja flokks efni. Það fór ekki mikið fyrir metnaðinum fyrir hönd Ríkisútvarpsins á Alþingi Íslendinga í þeim hluta umræðnanna sem Molaskrifari heyrði.

Löngu tímabært er að fjölga þeim sem kynna dagskrá Ríkissjónvarpsins. Hvimleitt er að hlusta sífellt á ýktar áherslur og tilgerðsömu raddar (hér – hikk á rúv). Á Rás eitt starfa ljómandi góðir þulir sem mundu sinna þessu með miklum ágætum. Dagskrárkynningar sjónvarpsins eru greinilega teknar upp löngu fyrirfram og því ekki hægt að biðjast afsökunar á klaufaskap eins og þegar klippt var á veðurfregnir í miðju kafi á sunnudagskvöld (24.02.2013). Þetta eru vond vinnubrögð.

Fjölmiðlamenn eru svo gott sem alveg hættir að gera greinarmun á því að greiða atkvæði og að kjósa. Eins og vikið var að í Molum fyrir helgina. Sífellt er talað um að kosið sé um tillögur á Alþingi, þegar að mati Molaskrifara ætti að tala um að greiða atkvæði. Í kosningum fara menn á kjörstað og kjósa, greiða atkvæði. Á Alþingi er kosið í ráð og nefndir. Ekki greidd atkvæði um ráð eða nefndir, en atkvæði eru greidd um tillögur og lagagreinar. Atkvæðagreiðslan fer nú fram, segir þingforseti. Kosningin er hafin segir þingþingforseti, ef um listakosningu er að ræða.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Þakka þér, Kristín. Þetta er heldur þreytandi til lengdar. Enn eitt dæmið um dómgreindarleysið sem hrjáir stjórnendur í Efstaleiti.

  2. Kristín Pétursdóttir skrifar:

    Sæll.
    Mikið er ég sammála þér með þuluna á RUV. Alveg óþolandi þessar áherslur og ýkti hreimur.
    Kveðja, og takk fyrir pistlana, les þá alltaf.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>